ERNA 1924 – 2024

Guðlaugur A. Magnússon
(1902 – 1952)
stofnandi ERNU

Að neðan eru nokkrar svipmyndir úr sögu verkstæðisins s.l. 100 ár. Neðst á síðunni er frásögn viðskiptavinar sem er ástríðufullur safnari og fagurkeri mikill. En fyrst eru hér minningarbrot Fríðu Björnsdóttur blaðamanns um stjúpföður sinn Stefán Albertsson sem starfaði í ERNU á árunum frá því laust eftir stríð og fram á miðjan níunda áratuginn.

-o-

Úr sveit í silfur

Minningabrot um Stefán Albertsson silfursmið.

Mæðiveikin sem herjaði á sveitir landsins fyrrihluta síðustu aldar hafði margvísleg áhrif á íbúa sveitanna. Þar á meðal Stefán Albertsson sem hafði unnið ýmis sveitastörf í Vestur-Húnavatnssýslu fyrri hluta ævi sinnar. Hann horfði á eftir sauðfénu sem hann hafði sinnt í áraraðir í sláturhúsið og gat ekki hugsað sér að byrja upp á nýtt. Hann ákvað því að hverfa til Reykjavíkur á vit ævintýranna.

Þar fékk Stefán tækifæri til að hefja nýjan starfsferil á verkstæði Guðlaugs Magnússonar og silfursmíði kom í stað sauðfjárins. Vinnan á verkstæðinu átti vel við hann, snemma tók hann við umsjón með framleiðslu og síðar gerðist hann hluthafi í félagi sem Guðlaugur stofnaði um rekstur fyrirtækisins. Stefán hóf störf hjá fyrirtækinu í kringum 1946 og starfaði þar alla tíð á meðan hann gat stundað vinnu.

Listamaðurinn Jens Guðjónsson, mikill vinur Stefáns, skrifaði fallega minningargrein við lát hans árið 1988. Meðal annars sagði Jens að Guðlaugur frændi hans hafi sagt „að von væri á manni sem væri úr sveit og hefði hann fallist á að taka hann til reynslu á verkstæðið. Hann var snyrtilegur til fara [þegar hann kom], svipurinn hreinn en festulegur og mér fannst hann minna á aðalsmann í fasi,” skrifaði Jens.

Stefán var stjúpi minn en hann og móðir mín, Halldóra Andrésdóttir hjúkrunarkona, gengu í hjónaband árið 1954 og á heimili þeirra fylgdumst við með Stefáni vinna ýmislegt af verkstæðinu því iðulega kom hann heim með fulla skjalatösku af hálfunnum hnífsköftum. Fyrir jól og yfir sumartímann, þegar brúðkaup fóru helst fram, var mikið að gera í silfursmíðinni því engin var „kona með konum” nema hún fengi silfurskeið eða silfurhnífapör í jóla- eða brúðkaupsgjöf.

Með skjalatöskuna kom Stefán sér þægilega fyrir við lítið borð í stofunni þar sem hann hafði fest svuntu á borðbrúnina og batt síðan svuntuböndin um mittið. Þarna sat hann og klippti silfrið utan af sköftum og svarf vandlega skafthelmingana sem seinna voru síðan settir saman og hnífsblað fest í. Ekki mátti eitt einasta silfursnifsi detta á gólfið því allt var þetta dýrmæti sem ekki mátti fara til spillis. Á sama hátt fór Stefán höndum um jólaskeiðarnar sem í byrjun voru með emeleruðum skreytingum efst á skeiðarskaftinu. Það þurfti að snyrta bæði skeið og emeleringu vandlega, síðan var skeiðin brennd aftur áður en Stefán fór lokahöndum um þessa fallegu hluti.

Halldóra, Stefán og dóttursonurinn Valur á svölunum á Kleppsvegi þar sem allir kassar voru fullir af heimaræktuðum sumarblómum.

Stefán sagði mér eitt sinn frá því að fljótlega eftir seinni heimsstyrjöldina hefði fyrirtækið keypt „brotasilfur” (sbr. brotajárn) frá Englandi en silfrið kom bæði upp úr húsarústum og af heimilum fólks sem ekki hafði lengur ráð á að eiga fallega silfurmuni. Þetta silfur var síðan að sjálfsögðu brætt og úr því komu silfurhnífapörin sem starfsmenn verkstæðisins smíðuðu. Inn á milli voru allt að því kannski dýrgripir, bæði illa farnir sem og lítið skemmdir. Stefán gaf mér t.d. fallega ávaxtaskeið sem var býsna heilleg og varð sannkallað listaverk eftir smá lagfæringu. Skeiðin gæti verið úr einhverju setti þar sem annað hvort skikkjuklæddir postular eða aðrir helgir menn prýða skaftið.

Silfurskeið úr brotasilfri frá eftirstríðsárunum í Englandi.

Stefán lagði mikla áherslu á að ég færi vel með silfrið mitt. Þegar byrjað var að flytja inn vökva þar sem áföllnum skeiðum var stungið í, í stað þess að eyða löngum stundum í pússningu, sagði hann mér að þennan vökva mætti ég aldrei nota. Hann væri ætandi og myndi smátt og smátt eyðileggja silfrið. Í staðinn átti ég aðeins að nota mjúkan klút og gamla Silvo-pússulöginn og láta mig hafa það að verkið væri tímafrekt.

Sveitin hvarf ekki úr huga Stefáns þótt til Reykjavíkur væri kominn. Mamma og Stefán áttu sér athvarf í sumarbústað í Vatnsendalandi, Brú, og þar hvarf Stefán aftur í hlutverk sveitamannsins. Þar gróðursetti hann tré og plöntur, kartöflur voru settar niður á vorin og teknar upp á haustin. Þar var líka mikið af hinni óvinsælu alaskalúpínu. Stefán tók af henni fræin á haustin, setti í poka og seldi garðyrkjustöðvum sem síðan dreifðu út um allt land. Lúpínufræjum var sáð og græddu þau upp óræktarlönd sem nú þykir fólki lítið til koma þótt lúpínan hafi gert sitt gagn þá.

Stefán var mér og fjölskyldu minni mikils virði. Mamma og hann komu til okkar oft í viku og þegar þau höfðu stoppað lengur en Stefáni fannst við hæfi sagði hann gjarnan, „nú held ég að við ættum að fara heim því síminn gæti verið að hringja.” Hann var gamansamur.

Fríða og Vala Ósk Fríðudóttir á áttræðisafmæli Fríðu.

Ég hugsa til Stefáns í hvert sinn sem ég tek fram og horfi á silfrið mitt sem kom frá honum og mömmu til mín á hverju afmæli og hverjum jólum í nær fjörutíu ár.

Sara Steina framkvæmdastjóri ERNU og Fríða í 100 ára afmælisveislu ERNU 3. febrúar 2024.

Fríða Björnsdóttir og Vala Ósk Fríðudóttir færðu minningabrotin í letur.

-o-

-o-

Silfursöfnun.

Ungir að árum dvöldum við vinirnir á heimili hvors annars. Móðir hans átti þó okkuð af silfurborðbúnaði frá Georg Jensen. Einnig nefni ég kaffikönnu og teketil.

Hreifst ég svo mikið af þessu að ég ákvað að hefja söfnun á silfurborðbúnaði. Fórum við mamma niður í verslun með danska borðbúnaðinn, en mér fannst hann ekki falla að mínum smekk. Var okkur þá bent á að fara í verslun Guðlaugs A. Magnússonar á Laugavegi 22a.

Þegar inn var komið opnaðist fyrir nýr heimur fegurðar og úrvals silfurborðbúnaðar. Eftir að skoða þetta allt varð Kaktusmynstrið miðstærð fyrir valinu. Takmarkið var fyrir 8 manns, en endaði fyrir 12 manns. Stærra settið skyldi koma síðar. Við öll tækifæri fékk ég silfurborðbúnað. Eins og geta má nærri þá urðu eigendur G. A. M. vinir mínir og tóku mér tveimur höndum.

Ég get líka hrósað mér af því að vera hönnuður því ég hannaði salatsett, framburðargaffal og súpuausu.

Náin vinátta tókst með okkur Ásgeiri Reynissyni í gull- og silfursmiðjunni Ernu sem hefur haldist fram á þennan dag. Fölskvalaus og sönn vinátta.

Margt Meira gæti ég talið upp en læt ég nú staðar numið.

JHK

-o-

Hér er stuttmynd um gerð Íslandsskeiðarinnar.