Fréttir

Skemmtilegt viðtal Sigurlaugar Jónasdóttur á RÚV við gullsmiðina Dóru Jónsdóttur og Höllu Boga.

Hér er meiri fróðleikur frá Dóru á síðu Félags íslenskra gullsmiða.

Á þessu ári er ekki aðeins ERNA 100 ára heldur verður Félag íslenskra gullsmiða 100 ára eftir 100 daga. Talið verður niður frá deginum í dag, 12/7, með birtingu myndar af grip eftir gullsmið næstu 100 daga.

Fyrsta myndin er af grip sem smíðaður var hér í ERNU. Það er mokkasett úr silfri með bergkristöllum.

-o-

Á þessu ári hefur verkstæðið starfað í 100 ár, var sett á laggirnar á Ísafirði 1924. Gert að hlutafélagi 1947 og hlaut þá nafnið ERNA. Hér er mynd frá afmælisveislu sem haldin var afmælisdaginn 3. febrúar.

Sara Steina framkvæmdastjóri ERNU og Fríða Björnsdóttir blaðamaður. Fríða ritaði minningarbrot um stjúpföður sinn Stefán Albertsson sem starfaði í ERNU um langt árabil. Dóttir Fríðu, Vala Ósk, aðstoðaði hana við skrifin og finna má minningarbrotin hér.

-o-

Björk Guðmundsdóttir var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Listaháskóla Íslands á útskrift skólans sem fram fór í Silfurbergi í Hörpu þann 16. júní síðast liðinn. Af því tilefni var henni afhentur pendúll sem smíðaður var hér í ERNU, hannaður af Tinnu Gunnarsdóttur, vöruhönnuði og fyrrverandi prófessor við LHÍ.

-o-

2 kertastjakar sem smíðaðir voru í ársbyrjun og afhentir miklum fagurkera.

-o-

Kertastjaki 5 arma sem smíðaður var fyrir viðskiptavin í árslok 2022.
YRSA Reykjavík armbandsúr sem pantað var fyrir jól. Handsmíðað í ERNU úr silfri og stáli með vönduðu 21 rúbína sjálfvinduverki.
Viðskiptavinur og velunnari pantaði 2 hnífspaða, annan í Smára mynstri og hinn í Reykjavíkur mynstri. Hann bað sérstaklega um að Reykjavíkur spaðinn yrði skreyttur með lítilli jólarós
…sem hér sést.

-o-

Víkingar tveir komu og pöntuðu giftingarhringa. Karlinn sprengdi stærðar kvarðann eins og sést á myndinni að ofan.
Hringarnir klárir.

-o-

Við fengum skemmtilegt bréf frá Árna Böðvarssyni í Mosfellsbæ. Þar segir m.a.; -þetta er sveinsbréf afa míns Jóns B. Eyjólfssonar gefið út á Ísafirði handskrifað af Hannesi Hafstein sýslumanni og skjal um að hann hafi verið útnefndur heiðursfélagi í Félagi íslenskra gullsmiða-.

Jón B. Eyjólfsson gerður heiðursfélagi í FÍG 1951.
Sveinsbréf Jóns B. Eyjólfssonar (1875 – 1954).

-o-

Þessi Ford Model AA (1927–1932) olíubíll frá Shell kom í smá viðhald hjá okkur. Listamaðurinn Paul Oddgeirsson smíðaði hann, af mikilli nákvæmni 1977, fyrir samstarfsfólk Indriða Pálssonar er fékk hann að gjöf.

-o-

Sigmundur Ernir, hjá Gísla Marteini, nýsæmdur gullmerki Blaðamannafélags Íslands sem smíðað var hér í ERNU.

-o-

Trúlofunar og giftingarhringar úr tantalum. Erna hefur í rétt tæp 100 ár kynnt nýjungar fyrir Íslendingum og hér bætist í fjölbreytta flóru málma sem verkstæðið hefur uppá að bjóða. https://erna.is/trulofunar-og-giftingahringar/

-o-

Fjörusteinninn umhverfisverðlaun Faxaflóahafna var afhentur 12. júní síðast liðinn. Þetta er í 14 skipti sem ERNA ehf fær það ánægjulega hlutverk að útbúa hann.
-o-
Fyrsta pöntun af YRSU úrum í langan tíma afgreidd. Ferðamenn kaupa yfir 90% YRSU úranna þ.a. það hefur verið rólegt undanfarið í úradeildinni. Aspar úrin og frönsku gæða úrin frá Pierre Lannier hreyfast meira enda eru það Íslendingar sem kaupa þau í meira mæli.
-o-

Gunnar Bernhard við valsinn og Guðjón faðir hans við stóru pressuna, í silfursmiðjunni Plútó. Myndirnar voru teknar í kringum 1950. Gylfi sonur Gunnars færði Ernu hf þessar myndir en Erna og Plútó sameinuðust 1960.

Heiðursmennirnir Jörmundur Reykjavíkurgoði og Guðmundur Hannah úrsmiður á Akranesi. Þeir áttu stutt spjall nú í sumar þegar sá fyrrnefndi kynnti nýja afsteypu af meni sem hann ber og sést á myndinni ef grannt er skoðað. Myndefni þess er Askurinn Yggdrasil.

-o-


Fallegur fugl á vorsýning Fèlags áhugamanna um tréskurð, haldin í Heimilisiðnaðarfélaginu Nethyl 2 helgina 13. og 14. apríl (frá 13.00-17.00 -heitt á könnunni og allir velkomnir-).

-o-

Bjarni Siguróli Jakobsson kandídat Íslands fyrir Bocuse d´Or 2019

ERNA tekur þátt í smíði áhalda kokkalandsliðsins sem heldur til Lyon í Frakklandi. Þar fer keppnin fram í lok janúar.

-o-

Frönsk klukka, sem kom til viðgerðar, eftir listamanninn Thomas François Cartier (1879 – 1943).  Hann starfaði í París frá 1904 og var þekktur fyrir málverk sín og smá-höggmyndir af dýrum.  Hann setti gjarnan klukku í höggmyndirnar, eins og pardusinn að ofan.

-o-

Fríður hópur nema frá Tækniskólanum kom í heimsókn ásamt kennara sínum Höllu Boga.  Þau vildu fræðast um borðbúnað  og fleira tengt gull- og silfursmíði.  Halla Boga bauð uppá fyrsta flokks bakkelsi eins og  hún er þekkt fyrir og kryddaði þannig skemmtilega stund.

-o-

Sérsmíði er stór þáttur í okkar starfi og ýmislegt skemmtilegt ratar inná okkar borð.  Handjárnin að ofan eru gott dæmi en þau eru reyndar úr silfri, ekki járni.

-o-

Stjakar frá Bessastöðum sem Ingimar Ingimarsson staðarhaldari fól okkur að  lagfæra. Þeir voru smíðaðir í Sheffield á Englandi 1941.  Stimpillin G&S. Co/Ld, sjá neðri mynd, er merki fyrirtækis sem  stofnað var 1880 í London af ýmsum silfursmiðum og gullsmiðum.

Stjakarnir eru fylltir eins og algengt er með stjaka frá Bretlandi.  Þeir eru viðkvæmir og þola ekki hita því fyllingin er efni samsett úr viðarkvoðu (myrru) og gifsi,  Myrran var áður fyrr notuð til að setja saman hnífa.  Algengt er að fólk komi með slíka hnífa til okkar eftir að hafa sett þá í uppþvottavél.  Það er nægur hiti til að losa blöðin frá skaftinu.

-o-

Nú í sumar veittu Faxaflóahafnir  Hafinu – Öndvegissetri um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins  umhverfisverðlaunin Fjörusteininn 2018.

-o-

Skjaldarglíma Bergþóru og Skjaldarglíma Skarphéðins, var glímd að Laugarvatni nú nýverið.   Í ársbyrjun  fól Jón M. Ívarsson glímukappi og sagnfræðingur m. m.  okkur það verkefni að setja nýja skildi á Skarphéðinsskjöldinn og Bergþórumenið með nöfnum sigurvegaranna.  Nánar á vef HSK.

Á Bergþóruskildinum stendur:  -Dýrust fegurð fölnar bráðla, en afrek aldrei fyrnast- .   Kristinn Guðnason átti hugmyndina að verðlaunagrip fyrir konur sambærilegum Skarphéðinsskildinum. Áletrunin er einnig hans hugmynd.

-o-

Jörmundur Ingi Reykjavíkurgoði á ferð um Borgarfjörð.  Hann var að kynna skartgripi sem hann hannaði og eru framleiddir í ERNU,  Gripirnir fást í Snorrastofu Reykholti, Landnámssetrinu Borgarnesi, hjá Guðmundi B. Hannah úrsmið Akranesi, Geysisbúðunum og hjá GÞ í Bankastræti.

-o-

Silfurbúið horn, smíðað fyrir erlent tignarmenni .

-o-

Fjörusteininn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2017, hlaut Landhelgisgæsla Íslands. Erna hefur undanfarin ár smiðað þennan grip úr fjörugrjóti og silfri. Er það okkur mikill heiður.

-o-

Fulltrúi Ernu ehf kynnti þau borðbúnaðar munstur sem framleidd eru á Íslandi fyrir Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.

Í sumarbyrjun 2017  fóru nokkrir gullsmiðir á fund forseta Íslands. Tilgangurinn var að skoða silfurborðbúnað embættisins á Bessastöðum.  Forsetinn og Eliza Reid forsetafrú tóku hlýlega á móti forvitnum gull-og silfursmiðum. Guðni Th. Jóhannesson sagði frá því að Sveinn Björnsson hafi árið 1941 látið  smíða borðbúnaðinn. Sveinn var ríkisstjóri frá 1941 til 1944 er hann var kosinn forseti á Þingvöllum 17. júní.  Arna Arnardóttir formaður Félags íslenskra gullsmiða átti frumkvæði að þessari fróðlegu heimsókn.

-o-

Forstjóri PL Pierre Burgun, Ásgeir Reynisson frá Ernu og ungfrú Frakkland Delphine Wespiser.

Frá 40 ára afmælisveislu Pierre Lannier.  PL er eitt örfárra fyrirtækja sem enn framleiða og hanna armbandsúr í Frakklandi.  Vöxtur þess hefur verið mikill og nýr stór sölusamningur við Kína undirritaður í tengslum við þessi tímamót.

-o-

Keppt var um verðlaunagripi Íslandsglímunnar; Freyjumenið  og Grettisbeltið 1. apríl síðast liðinn.  Fyrst var keppt um Grettisbeltið 1906 en Freyjumenið árið 2000.  Erum við þakklát fyrir það traust sem Glímusamband Íslands sýnir Ernu þegar kemur að elsta og dýrmætasta verðlaunagrip þjóðarinnar og Freyjumeninu sem smíðað var hér í Ernu úr gulli, silfri og perlum.

verðlaunagripir
Glímukóngurinn 2017, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, Glímudrottningin 2017, Marín Laufey Davíðsdóttir og Ólafur Oddur Sigurðsson, formaður Glímusambands Íslands.

-o-

Vaskir strákar frá Nóaborg komu í heimsókn og skoðuðu verkstæðið.

Á myndinni frá vinstri eru Daníel Hrafn, Úlfur, Jón Louie, Stefán Sölvi, Þorsteinn Flóki, Krzysztof Bjarni, Hartmann Rafael, Ævar Orri, Sigmar Magni, Jóhann Þór ásamt Atla Jasonarsyni og Hildi Önnu Hilmarsdóttur. Erna þakkar kærlega þann mikla áhuga sem þeir sýndu.

-o-

Opið hús var í Ernu föstudaginn17/12 og komu margir til að sjá smíði jólaskeiðarinnar.  Sara Steina tók sig til og bakaði á staðnum og bauð uppá heimsfræga kaffið sitt.  Meðal gesta voru langfeðgarnir Björgúlfur og Úlfur.  Þeir voru settir í vinnu og tengdu þeir nýja vél enda annálaðir fyrir kunnáttu í tölvum og rafmagnsfræði.

ulfur1
Úlfur gangsetur vélina í fyrsta sinn.

-o-

Hér má finna viðtal við Ragnhildi Sif Reynisdóttur hönnuð jólaskeiðarinnar um tilurð skeiðarinnar og hugmynd að baki hennar. Ath. viðtalið er á blaðsíðu 14 í Fréttablaðinu frá 5. desember, sem tengillinn vísar á.

rsr

-o-

Martial Butscher frá franska úraframleiðandanum Pierre Lannier heimsótti okkur nú í haust. Með honum í för var eignikona hans Rachel og sonurinn Anastase.  Nú eru 20 ár síðan Erna hóf innflutning á PL úrunum og að því tilefni ýmis tilboð í gangi á þessum fallegu gæðaúrum.

Martial

-o-

Hjálm­ar H. Ragn­ars­son tón­skáld  var, fyrstur manna, sæmd­ur heiðurs­doktors­nafn­bót LHÍ þann 17. júní síðast liðinn.  Við út­skrift­ar­at­höfn Lista­há­skóla Íslands í Hörpu var honum færður þessi pendúll sem listamaðurinn Tinna Gunnarsdóttir hannaði og smíðaður var hér í Ernu.

pendull

-o-

Fjörusteinninn 2016

fjorust2016

Umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna 2016 var veitt fyrirtækinu Special Tours. Undanfarin ár hafa Faxaflóahafnir sf. tilnefnt fyrirtæki á hafnarsvæði sínu og er það mikill heiður fyrir Ernu ehf að smíða  þessa gripi úr fjörugrjóti og silfri.

-o-

Kaldalónsskálin er silfurskál sem smíðuð var hér í Ernu.


Kaldalónsskálin veitt í fyrsta skipti við athöfn í lok þjóðhátíðarguðþjónustu í Seltjarnarneskirkju.

Ungur Seltirningur, Friðrik Guðmundsson, hlaut á þjóðhátíðardaginn 17. júní  s.l. KALDALÓNSSKÁLINA – Tónlistarviðurkenningu Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Selmu Kaldalóns tónskálds (1919-1984).  Viðurkenningin var veitt í fyrsta skipti við athöfn í lok þjóðhátíðarguðþjónustunnar í Seltjarnarneskirkju. Guðmundur Snorrason, forseti Rótarýklúbbsins, afhenti skálina, ásamt heiðursskjali. Ólafur Egilsson, form. æskulýðsnefndar klúbbsins, flutti einnig ávarpsorð.

-o-

Heimsókn Félags íslenskra gullsmiða í Kjörís

Afsakið, mynd hefur glatast við flutning milli hýsingarfyrirtækja.

Guðrún Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Kjörís tekur við fyrstu ísskeiðinni sem Erna nú framleiðir. Myndina tók Arna Arnardóttir formaður FÍG eftir að hafa afhent Guðrúnu skeiðina sem er úr silfri og stáli. 

-o-

Heimsókn gullsmíðanema úr Tækniskólanum 11. 3. 2015

Afsakið, mynd hefur glatast við flutning milli hýsingarfyrirtækja.

Unga fókið vildi fræðast um smíði silfurskeiða og sérstaklega hvernig skeiðablöðin verða til.

Afsakið, mynd hefur glatast við flutning milli hýsingarfyrirtækja.

Kennarinn þeirra, Halla Boga, fremst á mynd. Að venju bauð hún uppá kruðerí þ.a. úr varð mikil veisla. Þökkum kærlega fyrir okkur, áhugann og veitingarnar.

-o-

Frá heimsókn iðnaðarráðherra og formanns SI í Ernu.

idn2

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI fræðast um smíði á silfurborðbúnaði í Ernu. Báðar höfðu safnað silfri frá verkstæðinu. Ragnheiður sagði skemmtilega sögu af því þegar hún fékk recept uppá silfurskeið í skírnargjöf.

Eldri fréttir