Fróðleikur

Samtíningur af fróðleik sem Erna hefur áður birt á fésbók, gömlu heimasíðunni og víðar.

hraunSimon

Bergkristall brilliantslípaður

Guðmundur Bjarnason steinaslípari á Akureyri er flestum gullsmiðum kunnur. Þegar hann lét af störfum, eftir að hafa verið verkstjóri í Slippnum á Akureyri  til margra ára, helgaði hann sig steinaslípun. Kom sér upp fullkomnari tækjum en höfðu sést áður hér á landi. Guðmundur slípaði þennan bergkristal (SiO2) sem hér sést.

SUC57347SUC57349

Steinaslípun hefur verið þekkt iðngrein frá 1375 er fyrsta gildi steinaslípara var sett á laggirnar í Nuremberg.  Það var um miðja 17. öld sem fyrstu brilliantslípuðu steinarni litu dagsins ljós en bergkristallinn er slípaður í því formi mjög endurbættu.  Uppúr 1900 þegar verkfæri urðu betri varð þróunin ör og 1919 teiknaði Marcel Tolkowsky upp þá brilliant slípun sem stuðst er við í BNA og kölluð American Standard. Tolkowsky var verkfræðingur og kominn af Pólskum demantaslípurum.  Markmið hans var að ljós endurkastaðist upp í gegnum borð demantsins hvaðan sem það kæmi inn í steininn. Sem dæmi er hæð steinsins mikilvæg í því skyni og er þegar best lætur um 57- 60% af þvermáli steinsins.  Í Evrópu er stuðst við Practical Fine Cut (þ. Feinschliff der Praxis) og Scandinavian Standard. Lítill munur er á þessum  slípunum, einna helst að sú ameríska er með meiri hæð ofan beltis (miðju) en hinar sem eru aftur með þvermál borðsins meira. Hér má finna upplýsingar um það hvernig menn gerast eðalsteinafræðingar.

botn

Í grein á vef Breiðdalsseturs er nefnist Íslenskt grjót fyrir alla má lesa um Bergkristal:

Bergkristall er sá kristall sem manni dettur fyrst í hug, þegar maður hugsar um kristal.  Steindin er litlaus og gegnsæ með vel formuðum sexhliða pýramída. Oft er kristalsúlan hvít  eða gráleit og aðeins oddurinn gegnsær.

Greinin sem er samstarfsverkefni á milli Breiðdalsvíkurskólans og Breiðdalsseturs er bæði fróðleg og skemmtileg. Þar má lesa um helstu steina sem finnast hér á landi.

Raf

Raf 001

Raf sem finnst við Eystrasalt er 30- 100 milljón ára steingerð trjákvoða af barrtrjám og stærstur  hluti þess  finnst við strendur Pólands og Kaliningrad (Königsberg) héraðs Rússlands.

Allt frá nýsteinöld hefur mannkynið dáðst að og notað raf. Landkönnuðurinn Pýþeas frá Massalíu sem uppi var á 4. öld f.kr. lýsir því hvernig Gotar nýta raf. Pýþeas er sá hinn sami og fyrstur nefnir  Thule á nafn sem margir telja að hafi verið Ísland. Hann lýsti manna fyrstur miðnætursól og hafís sem styður þá tilgátu. Í ritum hans er einnig fyrst minnst á Germaníu, landið er Gotar og skyldar þjóðir byggðu.  Germanir kölluðu raf glæsun sem er skilt orðinu gler. Þeir seldu raf til landa Suður-Evrópu og þaðan barst raf til dæmis til Sýrlands þar sem það var vinsælt efni  í snældur.

Land Gotanna er núverandi  norðurströnd Pólands og þar  liggur borgin Gdansk í héraði sem nefnt er Pomorskie (Pommern) og þýðir land við hafið.  Elstu heimildir um borgina eru frá árinu 999.  1358 gerðist borgin hluti af Hansa sambandinu  og auðgaðist á verslun enda vel í sveit sett þar sem árnar Mottlava og Visla renna í flóann sem kenndur er við Gdansk.

WP_20150816_18_57_00_Pro

Í borginni eru fjölmargar verslanir sem selja muni úr rafi, margar afar glæsilegar. Kaupstefna er haldin einu sinni á ári þar sem verslað er með raf. Ein þessara verslana er Amber Art sem Anna og Wojciech Leonowicz reka ásamt tilheyrandi verkstæði. Fyrirtækið er 50 ára gamalt og er við Dlugi Targ sem er ein helsta verslunargata Gdansk. Wojciech var svo vinsamlegur að sýna undirrituðum og fylgdarliði verslun sína og verkstæði. Flestar verslanir og veitingahús við götuna eru með starfsemi á sjálfri götunni sem er göngugata. Wojciech heldur þar úti bás með úrvali skartgripa og nytjahluta eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

WP_20150816_16_29_44_Pro
Ungur viðskiptavinur skoðar úrvalið.

raf

Þökkum Wojciech í versluninni Amber Art góðar móttökur.

Amber Art

Dlugi Targ 2/3

80-828 Gdansk

s. (058) 301 19 55

www.artamber.pl

liddicoatite

rubin

rubin2

opal

opal2

Steinar sem líkjast demanti:

Cubic Zirconia

Uppúr 1960 var vinsælasti steinninn sem líktist demanti Rutile. Auðvelt var að greina milli demants og rutile með 10x lúpu vegna þess að ljósbrot kom upp um steininn líkt og gerist með moissanite. Strontium titanite var einnig vinsæll steinn sem notaður var sem eftirmynd demants. Hörkustig hans er 6 á Mohs kvarða en hann rispast auðveldlega.  Litdreifing er mikil þ.a. auðvelt er að greina milli hans og demants. Algengt er að útbúa hann sem dublettu þar sem strotium titanite er neðri steinninn.

Það er svo um 1973 að Rússum tekst að framleiða (fianit) cubic zirconia (ZrO2) þar sem þeir leituðu að nýju efni í teningslaga/cubic kristalflokki til notkunar í leisertækni. Aðferðin gekk utá að hita zirconium oxíð í örbylgjuofni sem komu á markað nokkru fyrr þótt í raun hefðu þeir verið fundnir upp löngu áður til að gefa hermönnum 3. ríkisins í fremstu víglínu heitan mat. Með tilkomu örbylgjuofnsins var mögulegt að hita efni uppfyrir þolmörk hitaþolnustu deiglna. Á ensku heitir þessi aðferð -skull melt- þar sem efnið hitnar innan frá og ytra lag kaldara heldur utanum það eins og deigla. Framleiðsla hófst 1976. Zirconium er málmur en kristallast með kísil i ferhyrnt/tetragonal kristallkerfi og kallast þá zircon (ZrSiO4).  Cubic zirkonia er framleiddur með því að nota kalsíum eða yttríum til að zirconium málmurinn kristallist með súrefni í teningslaga/cubic kristalflokki sem er mjög mikilvægt svo hann líkist demanti. Hörkustig á Mohs kvarða er 8- 8.5  og ljósdreifing meiri en í demanti. Cubic zirconia er til í náttúrunni, árið 1937 fundu þýskir vísindamenn efnið en gáfu því ekki nafn. CZ eins og hann er oft kallaður til styttingar er lang algengasti steinninn sem notaður er sem eftirlíking demants. Fáum árum, eða 1980, eftir að framleiðsla hófst var heimsframleiðslan komin uppí 10 tonn.

Moissanite SiC

Manngerður moissanite er eðalsteinn sem fyrirtækið Charles & Colvard settu á markað árið 1998. Náttúrulegir mossanite eru afar sjaldgæfir. Fyrsta kristalinn fann Dr Henry Moissan  í loftsteini  árið 1893 í Canyon Diablo í Arizona. Í upphafi var kristallinn greindur sem demantur en 1904 fann Dr Henry  Moissan út að kristallinn var kísill og kolefni en ekki hreint kolefni.

Charles & Colvard  lögðu mikla áherslu við markaðssetninguna á að selja moissanite mæla til að greina þá frá demanti. Segja sumir að fyrirtækið hafi þénað jafn mikið á þessum mælum og steinunum í byrjun. Hörkustigið er næst demanti eða 9.5 á Mohs skala. Hingað til hefur ekki mikið orðið vart við þessa steina á Íslandi en gera má ráð fyrir að á ferðalögum og í gegnum netið hafi landsmenn keypt skartgripi með moissanite. Það er þó engin ástæða fyrir gullsmiði til þess að fjárfesta í dýrum mælum því ólíkt demanti, sem er í teningslaga/cubic kristlalflokki, er moissanite í sexhyrndu/hexagonal kristalkerfi sem þýðir að hann brýtur ljósið. Því er nóg að eiga 10x lúpu til að greina moissanite frá demanti. Best er að horfa með lúpunni gegnum fasettu neðan við borðið á steininum og skoða fasetturnar neðan á steininum, ef þær sýnast tvöfaldar ert þú líkast til með moissanite í höndunum.

Heyrst hefur að Charles & Colvard stefni að því að rækta moissanite í teningslaga/cubic kristal formi. Ef það tekst er athugandi að fjárfesta í moissanite mæli. Den tid den sorg.

Nikkel (Ni)

8,97 g/cm3

Bræðslumark 1455 C

Notað í nýsilfur og áður fyrr í hvítagullsblöndur.

Tin (Sn)

7,3 g/cm3

Bræðslumark 232 C

Mannkynið hefur nýtt tin lengi, næst á eftir kopar, gulli og silfri.

Tin er notað m.a. til að húða matarílát úr kopar til að koma í veg fyrir kopareitrun.

Blý (Pd)

11,3 g/cm3

Bræðslumark 327 C

Notað áðurfyrr af gullsmiðum í brennisteinssýrukör þar sem blý þolir þá sýru. Það leysist upp í saltpéturssýru. Blý er einnig notað sem undirlag þegar verið er að móta t.d. skeiðarblað. Blý er hættulegt og við bræðslu verður að hafa góða loftræstingu.

Ál (Al)

2,7 g/cm3

Hörkustig 2.5- 3 á Mohs skala, bræðslumark 653 C

Sink (Zn)

6,8-7,1 g/cm3

Bræðslumark 420 C

Lóðvatn inniheldur saltsýru sem er mettuð sinki. Einnig notað í silfurslaglóðsblöndur og gullblöndur.

Kadmíum (Cd)

8,6 g/cm3

Bræðslumark 320 C

Áður fyrr notað í slaglóð en því hætt vegna eiturhættu.

Vismut (Bi)

9,79-9,9 g/cm3

Bræðslumark 269 C

Notað í lóðtin til að gera það léttfljótandi.

Nýsilfur

Samanstendur af 50% kopar 25% sink og 25% nikkel. Notað í ýmsa nytjahluti.

Messing

Inniheldur kopar og sink í ýmsum hlutföllum eftir því hvaða eiginleikum menn sækjast eftir.

Brons

Inniheldur kopar, tin og sink en langmest (oft 95%) kopar.

Tambak

Inniheldur kopar og sink stöku sinnum einnig tin en einsog bronsið mest þó kopar.

Stál/ járn

Gullsmiðir nota verkfærastál í t.d. púnsla. Það má herða og til þess þarf það að innihalda kolefni í meira mæli en annað stál. Til að ná fram sérstökum eiginleikum er ýmsum málmum bætt í stálið s.s. nickel, króm, molybden, wolfram og fl. Einnig nota gullsmiðir stansastál til að smíða mynsturstansa. Það hefur þá eiginleika að herðast í gegn og þola mikið álag.  Við í Ernu notum t.d. stansastál  fráBöhler í Vínarborg.

Titanium (Ti)

4,8 g/cm3

Bræðslumark  1660 +/- 10 C

Notað í úr, skartgripi og fl. vegna eiginleika sinna. Titanium hefur mestan styrk m.v. þyngd allra þekktra efna. 85% burðarvirkis geimferjunnar er úr titanium. Titanium er algerlega laust við að valda ofnæmi og því kjörið í læknatól og varahluti fyrir mannslíkamann. Í Ernu notum við CP (commercilally pure) titanium. Skalinn CP 1- 4 mælir styrk, 1 er mýkst og 4 því harðara. Súrefnis innihald segir mest til um hörkuna, meira súrefni meiri harka. Í samstarfi við Iðntæknistofnun/ Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur Erna ehf rannsakað hvernig best megi nýta titanium í skartgripi og nytjahluti. Sú vinna hefur veitt okkur nokkuð forskot og gert okkur kleyft að bjóða Íslendingum góða vöru á betra verði en ella nú á þrengingatímum.

Wolfram (W)

19.25g/cm3

Bræðslumark 3422°

 Wolfram eða Tungsten/Þungsteinn er nú nýverið notaður í skartgripi enda með svipaða eðlisþyngd og gull auk mikils styrks. Aðferðin sem notuð er við skartgripasmíði er svokölluð sindrun. Hann hefur hæsta bræðslumark allra málma.  Helstu námurnar eru í Kína, Rússlandi, Austurríki og Portúgal. Fræg er sagan af því er Edison leitaði að glóðaþræði í fyrstu ljósaperuna og gerði tilraunir með ýmsa málma þar til hann prófaði tungsten. Tungsten er einnig notaður í eldflaugahreyfla og víða þar sem hitaþol þarf að vera mikið. Tungsten er 10 sinnum harðara en gull, 5 sinnum harðara en stál og 4 sinnum harðara en titanium. Að neðan eru nokkrir málmar og hörkustig á Mohs skala:

Gull              2.5-3
Silfur            2.5-3
Platinum       4-4.5
Titanium              6
Tungsten Carbide 9
Demantur           10

Til að ná Tungstenhringi af fingri vegna slyss eða annars sem veldur bólgu er til ráð hér að neðan (á ensku). Við höfum reynt það hér í Ernu án þess það hafi virkað nógu vel. Betra er og fljótlegra, ef aðstæður leyfa, að nota demantskífu og skera hringinn sundur á 2 stöðum, andspænis hvor öðrum. Að sjálfsögðu verður að gæta vel að fingrinum, setja undir hringinn e-ð sem tekur við skífunni þegar hún hefur skorið hringinn sundur. Það gæti verið t.d. hnífsblað eða skaft af skeið ef ekki er annað handhægt til. Hér kemur hin aðferðin:

To remove a tungsten carbide ring in an emergency situation, follow these simple steps:
Clamp vice-grip pliers loosely on the ring.
Tighten slowly until you hear a crack.
Remove vice-grip and place in another position on the ring.
Repeat steps 1 through 3 until the material breaks away. Take care not to slide or rotate the cracked ring on the finger. If the ring contains an inlay of gold, or other soft materials, the inlay can be cut or clipped away in the usual fashion.

Tungsten skartgripir okkar samanstanda af þessum efnum: WC 85.7%, Ni 9.5%, Ta 1.8%, Ti 1.5%, Nb 1%, Cr 0.3% annað 0.2% Þessi blanda tryggir að ekki seytir úr efninu, þegar húðsýrur verka á skartgripinn, eins og t.d. þegar blanda inniheldur kóbalt.

(Molarnir að neðan birtust í Sjónvarpshandbókinni á árunum 1997-2000)


Gamall silfurborðbúnaður er mikið í tísku í dag. Best er að þvo hann upp úr upphituðu, köldu vatni því heitavatnið oxar silfrið. Varast ber að hita hnífana mikið því blöðin vilja losna séu þeir samsettir úr ákveðinni efnablöndu sem notuð var áður fyrr.  Sé gamall silfurborðbúnaður keyptur hjá antiksala er ráðlegt að fá leiðbeiningar hjá gullsmið um umhirðu. Rétt umhirða tryggir nánast ótakmarkaða endingu og aukið verðgildi með árunum.


Í 5000 ár hafa trúlofunarhringar verið tákn um kærleik og trúnað.

Brúðkaupsdagar:

1 ár: pappírs 9 ár: leir 25 ár: silfur
2 ár: bómullar 10 ár: tin 30 ár: perlu
3 ár: leður 11 ár: stál 35 ár: kóral
4 ár: blóma 12 ár: kopar 40 ár: rúbín
5 ár: tré 13 ár: knipplinga 45 ár: safír
6 ár: sykur 14 ár: fílabeins 50 ár: gull
7 ár: ullar 15 ár: kristals 55 ár: smaragðs
8 ár: brons 20 ár: postulíns 60 ár: demants

Mohs kvarði er notaður til þess að ákvarða hörku efna. Þrepin eru 10. Munur milli þrepa er mismikill. Ekki er mikill munur á milli annars og þriðja þreps en hinsvegar er 10. þrep 80 sinnum harðara en 9.

Mohs kvarði: Harka ýmissa efna:

1 Kalk
2 Gifs 2,5 Fingurnögl, fíngull. fínsilfur,blý
3 Kalsít 3 Kopar
4 Flúorít 4 925 Sterlingsilfur
5 Apatít 5,5 Rúðugler
6 Feldspat 6 Hnífsblað
7 Kvars 6,5 Þjöl
8 Tópas 9 Karbítur
9 Kórund
10 Demantur

925 Sterling er algengasta blanda silfurs í dag. Hinrik ll Englandskonungur (1133-89) tók upp þessa blöndu. Hún er kennd við bræðslumeistara konungs sem komu frá Þýskalandi. Easterlings eða austurlingar kölluðust frændur Englendinga, að austan, í þá tíð. Um 1300 varð Easterling silfur gert að gjaldmiðli á Englandi.

Algengar gullblöndur: Algengar silfurblöndur:

8K 333 .3333 800/1000 silfurs
9K 375 .3750 830/1000 silfurs
10K 416 .4167 835/1000 silfurs
14K 585 .5833 900/1000 silfurs
18K 750 .7500 925/1000 silfurs (Sterling)
22K 916 .9167 958/1000 silfurs (Britannia)

Cu
Talið er að mannkynið hafi nýtt Kopar í 10.000 ár, lengur en nokkurn annan málm. Um 6.000 f. kr. smíðuðu Egyptar Koparvopn og um 5.000 f. kr. hefst bronsöld. Enn þann dag í dag er Koparinn manninum mikilvægur vegna eiginleika sinna. Hann leiðir hita og rafmagn mjög vel, auðvelt er að forma Kopar og hægt er að ná fram ólíkum eiginleikum með því að blanda Kopar við ýmsa málma, yfir 100 mismunandi blöndur eru þekktar. Komist Kopar í samband við rakt loft myndast spanskgræna, græn eitruð húð. Koparílát undir matvæli ættu að vera húðuð ef ekki þá er nauðsynlegt að hreinsa þau vel fyrir notkun.


Ni
Nikkel má m.a. finna í flestum loftsteinum, öllum plöntum og dýrum. 1751 uppgötvaði A.F.Cronstedt þennan silfurlita harðmálm. Nikkel er aðallega notað í málmblöndur til að auka styrk og viðnám gegn tæringu. Helsta nikkelblanda sem notuð hefur verið við skartgripasmíði er nýsilfur. Nýsilfur samanstendur af 60% kopar, 20% sinki og 20% nikkel.
Nikkel er einnig mikið notað við málmhúðun sem undirhúð undir t.d. gullhúð á ódýrum skartgripum. Fyrir allmörgum árum hættu íslenskir gullsmiðir að nota nikkel vegna eituráhrifa og rétt er að vara við húðuðum tískuskartgripum til að forðast nikkelofnæmi.


Art Nouveau
Jugend

Í byrjun þessarar aldar náði nýlistarstefnan hápunkti sínum. Hún hóf til vegs og virðingar deyjandi handverk til mótvægis við fjöldaframleiðslu. Handverksmenn fengu notið sín til fulls. Frjálsar og tignarlegar léttar línur einkenndu þetta tímabil. Einn áhrifamesti gullsmiður þessa stíls var René Lalique. Hugmyndaauðgi hans,
efnisnotkun og einstök leikni urðu þess valdandi að gullsmíði varð leiðandi grein innan nýlistarstefnunnar.


Gullborgin Pforzheim
Í Svartaskógi er borg sem í 200 ár hefur verið ein helsta miðstöð gull- og silfursmíði í heiminum. Gullsmíðaskólann þar sækja nemendur frá öllum heimshornum (þ.á.m. Íslandi / Dóra Jónsdóttir Dalmannssonar og Reynir Guðlaugsson Magnússonar) og hefur hann útskrifað fleiri merka gullsmiði en nokkur annar skóli. Í seinni heimsstyrjöld var borgin jöfnuð við jörðu. Aðeins 10 árum síðar hafði hún náð sínum fyrri sessi. Það er ekki ofsögum sagt af þjóðinni austan Rínarfljóts.


Georg Jensen
1866-1935

Starfaði sem myndhöggvari þar til hann sneri sér að silfursmíði í Kaupmannahöfn 1904. Starf hans hefur fært Dönum viðurkenningu sem einir fremstu silfursmiðir heimsins. Til marks um frábæra hönnun og smíði er eftirspurn eftir munum frá Georg Jensen gríðarleg. Fjöldi verslana sem bera nafn hans eru um alla heimskringluna. Íslenskt silfur hefur náð nokkurri útbreiðslu erlendis. Aðallega er það silfurborðbúnaður frá Guðlaugi A. Magnússyni (1902-1952) sem fagurkerar víða um heim safna. Á skammri ævi setti hann á fót afkastamikla silfursmiðju jafnframt því að vara fjölhæfur listamaður.


Flestar menningarþjóðir heimsins eiga sér stimplalög sem tryggja fyrst og fremst hagsmuni þeirra er fjárfesta í munum úr eðalmálmum. Óheimilt er að selja muni úr gulli, silfri eða platínu án stimpla sem segja til um hlutfall eðalmálma. Stimpillinn 925s segir að blandan sé 92,5% hreint silfur. Á Íslandi hefur Félag íslenskra gullsmiða, frá 1924, gætt hagsmuna neytenda svo fremi að verslað sé við félagsmenn.


Kórundum Al2O3
Allt fram á miðaldir þekktu menn aðeins bláan kórundum. Þegar uppgötvaðist að fleiri litbrigði væru til var það bláa kallað safír. Safír heitið er einnig notað um önnur litbrigði en það rauða sem kallast rúbín. Bestu safírarnir koma frá Kasmír. Aðrir eru ýmist of dökkir eða of ljósir. Bestu rúbínarnir koma frá Búrma, rúbínar finnast reyndar einnig á Grænlandi. Snemma á þessari öld fóru menn að framleiða gervi rúbína og safíra. Hörkustig kórundum er 9, aðeins demantur er harðari með hörkustig 10.


Blóðsteinn Fe2O3
Hefur verið mjög vinsæll í skartgripum síðustu ár. Þrátt fyrir glansandi svart yfirborðið verður blóðsteinn rauður þar sem hann rispast, virðist blæða ef vatn kemst í sárið. Er þar komin skýringin á heiti hans, það er dregið af latneska orðinu haima sem merkir blóð. Í duftformi er blóðsteinn nýttur sem litunarefni og í pólermassa (krókus). Hörkustig blóðsteins er 5,5-6,5. Meginuppistaða járnforða heimsins er á forminu Fe2O3


Peter Carl Fabergé 1846-1920
Fæddist í St. Pétursborg og tók við verkstæði föður síns 1870. Hann var afkomandi Húgenotta og hlaut menntun sína í Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi og Englandi. Fabergé og gullsmiðir hans smíðuðu ótrúlega fíngerða muni unna af mikilli hugmyndaauðgi fyrir evrópska og asíska þjóðhöfðingja fram að rússnesku byltingunni. Þekktastur er hann fyrir smíði hinna stórkostlegu páskaeggja fyrir keisara Rússlands. Fabergé lést í úrlegð í Sviss eftir að verkstæði hans hafði eyðilagst í átökum byltingarinnar.


Í Atlasfjöllum Norður-Afríku búa Berbar. Þeir eru ljósari á hörund en Arabar og bláeygðir. Margar misheppnaðar tilraunir hafa verið gerðar til að innlima Berba í samfélag Araba. Frelsisþrá Berba hefur haldið lífi í fornum menningararfi þeirra. Hluti þess arfs eru geysifagrir skartgripir sem kvenþjóðin ber og endurspegla þjóðfélagsstöðu. Ámóta listasmíði kemur fram í reiðtygum og hnífum karlmanna enda eru Berbar þekktir fyrir kunnáttu í reiðmennsku.


Allt til ársins 1873 álitu menn að arfsögnin um Tróju væri skáldskapur. Það ár fann Þýðverski fornleifaævintýramaðurinn Heinrich Scliemann í rústum mikils virkis á Eyjahafsströnd Tyrklands gríðarlegan fjársjóð. Hin stórkostlegu gull- og silfurdjásn renndu stoðum undir að á þessum stað hefði eitt sinn staðið mikið menningarríki. Í dag deila Rússar og Þjóðverjar um Trójugullið sem Rússar tóku herfangi í Berlín eftir fall 3. ríkisins. En vonandi endar það ferðalag sitt í heimahögunum þar sem það lá óhreyft eitthvað á 4. árþúsundið.


Björn leturgrafari
var einn þeirra manna er settu svip á bæinn um miðja þessa öld. 1936 fékk hann leyfi Páfagarðs til að teikna innsigli Meulenbergs biskups kaþólskra hér á landi. Eftir að hafa smíðað innsiglið fór hann á fund Páfa sem blessaði það og bauð Birni vinnu sem leturgrafari Páfagarðs. En í bænum við sundin beið íslensk stúlka, því voru það Íslendingar sem nutu starfa Björns. Björn lést árið 1971. Sonur hans Ívar hefur á lofti merki hans sem meistarasmiður og leturgrafari til dagsins í dag.


Nokkrir eiginleikar málma

Mesta rafleiðni Mesta hitaleiðni Mestur teygjanleiki
1. silfur 1. silfur 1. gull
2. kopar 2. kopar 2. silfur
3. gull 3. gull 3. platína
4. ál 4. ál 4. járn
5. sink 5. nikkel 5. kopar
6. nikkel 6. járn 6. ál
7. járn 7. tin 7. nikkel

Gullúnsu má draga í 1,5 km langan vír.  Eðalmálmar eru viktaðir eftir mælikerfi sem kennt er við borgina Troyes í Frakklandi.  Troyes únsa er 31,10gr.


Perlur
Náttúruperlur eru sjaldgæfar og oft afar verðmætar, þessvegna hafa menn tekið upp á því að rækta perlur t.d. í Kína, Japan og Ástralíu. Perlur unnar úr skeljamassa eru bara plat og jafnast á engan hátt við þær sem náttúran sjálf mótar. Þar sem perlur eru lífrænar eru þær viðkvæmar. Góð regla er að setja þær upp eftir að förðun er lokið. Ráðgjöf um umhirðu og sérstök hreinsiefni fást hjá öllum góðum gullsmiðum.


Metalurgy
Að áliti ýmissa vísindamanna var einn helsti veikleiki farþegskipsins Titanic stálið sem það var smíðað úr. Sú vísindagrein sem fæst við málma er kölluð málmfræði. Upphaf þessarar vísindagreinar er rakið aftur til ársins 1864 er menn fóru að rannsaka stál með smásjá. 1925 með tilkomu Röntgenskoðunar eykst bæði skilningur manna til muna á byggingu og eiginleikum málma og um leið öryggi í samgöngum.


Öfug hallarbylting
Laugardaginn 14. mars 1998 var haldinn aðalfundur Félags Íslenskra Gullsmiða. Þargerðist sá merki atburður að kosin var stjórn eingöngu skipuð konum undir formennsku Höllu Bogadóttur. Sigurður G. Steinþórsson fráfarandi formaður nefndi atburðinn öfuga hallarbyltingu þar sem helstu hvatamenn voru karlmenn og þ.á.m. Sigurður sjálfur. Ein kona hefur áður verið formaður þ.e. Dóra Jónsdóttir Dalmannssonar sem varð fyrst kvenna
á Norðurlöndum formaður fagfélags gullsmiða.


Gullsmíði er oft í gríni og alvöru talin önnur elsta starfsgrein mannkyns. Haganlega gerðir skartgripir voru smíðaðir fyrir 5000 árum. Stór hluti gulls og silfurs sem notað er, er endurunnið úr gömlum og slitnum munum. Hugsanlega hafa skartgripir forfeðra okkar, er numu landið, innihaldið brot af þeim 30 silfurpeningum sem greiddir voru Júdasi. Aðferðir við smíði eru í mörgu ævafornar en verkfærin þróast og nú nýverið opnaði fyrsta íslenska skartgripaverslunin á internetinu.
www.centrum.is/gull


Karl Guðmundsson
myndskeri frá Þinganesi lærði tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni. Uppúr 1936 þegar Guðlaugur A. Magnússon hefur framleiðslu á silfurborðbúnaði, hannar Karl borðbúnaðarmynstur sem enn eru framleidd og eftirsótt. Einnig hannar hann ýmsa minjagripi og skart sem einkennist af hinu sér íslenska höfðaletri og margslungnum fléttum. Í fornsögurnar sækir hann efni í skartgripi einsog armband eitt mikið sem vakti mikla athygli á handverkssýningu í Laugardalshöll nýverið. Þar er efniviðurinn Njála. Segja má að hönnun Karls sé þegar orðir sígild þar sem listfengi og djúpar rætur hins íslenska tréskurðar móta listmuni sem standa af sér alla strauma og stefnur.


Húsráð
1908 var sótt um einkaleifi í Bretlandi fyrir Polvit plötuna sem hreinsar bæði gull og silfur sem fallið er á. Fram til þessa hefur aðferðin aðallega verið notuð af antiksölum. Aðferðin er fólgin í því að setja plötuna í skál (ekki úr málmi) með upphituðu vatni (ekki hitaveituvatni) með sóda í. Munirnir sem hreinsa á eru settir á plötuna og dýft í vatnið og þeir hreinsast á nokkrum mínútum. Í stað plötunnar (sem fæst hjá ýmsum gullsmiðum) má ná svipuðum árangri með álpappír. Gæta verður þess að skola hlutina strax og þurrka vel þegar þeir koma uppúr baðinu.


Verðlaunasamkeppni úraframleiðenda
Árlega er haldin samkeppni um bestu úrin á Frönskum markaði, bæði Frönsk og innflutt. Dómnefndina skipa fjölmiðlafólk, seljendur og úraframleiðendur. Tilnefningar voru 156 í ár, af þeim keppti 21 úr til úrslita, 3 í hverjum flokki. Á þessu ári varð sú nýbreytni að eitt úr var valið úr hópi sigurvegara allra flokka af neytendum. Sigurvegari allra flokka er “Chronograph” frá Pierre Lannier, einum fremsta úraframleiðanda í Frakklandi sem þekktur er fyrir listræna hönnun og gæði.


Lapis Lazuli – er mikið notaður í skartgripi enda vinsæll og fallegur steinn. Heitið er dregið af  “Lapis” = steinn og “Lazuli” = Blár. Þessi fagri, blái steinn hefur verið eftirsóttur í 6000 ár og er enn unninn í námum er tilheyrðu hinu mikkla ríki er kennt var við hina fornu borg Babýlon.
Forn Egyptar tengdu Lapis Lazuli við réttlæti og báru dómarar steininn sem sannleikstákn. Einnig notuðu Egyptar Lapis Lazuli sem augnfarða í duftformi og má því ætla að Kleópatra hafi borið hann á sig þegar hún vildi heilla rómversk fyrirmenni. Lapis Lazuli er sagður bæta ýmis augnmein, astma og róa taugarnar sem ekki veitir af í hraða lífsins. Hörkustig Lapis Lazuli er 5-6 á Mohs kvarða.


Punica granatum er nafn sem Fönikíumenn gáfu steini sem þekktur er undir heitinu Granat. Þekktasta afbrigði hans Pyrop (eldur) er dökkrautt og finnst m.a. í Síberíu, Tanzaníu, Indlandi og Ástralíu. Í Bæheimi hafa menn numið Pyrop og notað í skartgripi í 500 ár. Ýmis átrúnaður tengist Granat, hann er sagður verja þann er skartar honum gegn húðsjúkdómum, slæmum draumum og því illa. Ennig njóta þeir ástar og tryggðar er bera Granat og ærin ástæða fyrir íslenska karlmenn að tryggja stöðu sína þegar ásókn erlendra í íslenskt kvenfólk hefur sjaldan verið meiri. Hörkustig Granats er 6,5 – 7,5 á Mohs kvarða.


Sú aðferð að steypa í mót sem gert er utanum vaxmynd sem síðan er brædd úr mótinu er þekkt allt frá dögun siðmenningarinnar í Mesópótamíu. Svo virðist sem þessi tækni hafiþróast sjálfstætt hjá ýmsum menningarsamfélögum víða um heimskringluna s.s. á 13. öld f.kr. í Mið-Ameríku og Afríku. Á bronsöld náðu menn á Norðurlöndum ótrúlegri leikni og steyptu m.a. hljómlúðra með örþunnum veggjum. Einn helsti sérfræðingur okkar í sögu málmsteypunnar Jörmundur Ingi alsherjargoði telur að ekki sé um samjöfnuð að ræða við þessa steyputækni fyrr en á okkar öld.


Árið 1997 jókst sala í Bandaríkjunum um 18% frá 1996 á borðbúnaði og gjafavöru (ekki skartgripum) úr sterling silfri. Heildarsalan 1997 var 41 milljarður króna, 23 milljarðar gjafavara og 18 milljarðar borðbúnaður. Stór hluti þessa eru brúðargjafir en aukningin var þó meiri á öðrum sviðum. Kertastjakar, rammar. bréfahnífar, minjagripir og skírnargjafir (barnaskeiðar o.þ.h.) úr sterling silfri njóta nú meiri vinsælda en fyrr. Hér á landi hefur einnig orðið vart aukinnar sölu á munum úr silfri sem er gleðiefni þar sem stærstur hluti þeirra er framleiddur á Íslandi. Hins vegar eru húðaðir munir undantekningarlaust innfluttir. Þessi þróun eflir því innlendan listiðnað á kostnað innflutnings.


Norðan heiða býr Guðmundur nokkur Bjarnason. Hann hefur unnið sér margt til ágætis m.a. er hann stórtækur steinasafnari og hefur auk þess mótað marga listmuni af kunnáttu úr íslenskum steinum. Einn þeirra steina sem hann hefur mætur á er Mugearít. Sá steinn finnst aðeins á Írlandi og á Íslandi. Mugearít er svartur steinn með ljósum doppum (Plagíóklas) . Um eiginleika hans er fátt vitað en hann finnst við eldstöðvar og gæti þess vegna tendrað tilfinningarbál í köldum mörlandanum. Hörkustið: 5,5 – 6


Þeir fórna börnum fyrir baunadisk
Rannsóknir í Japan hafa sýnt fram á skaðleg áhrif notkunar plastborðbúnaðar. Um 20% skóla í Japan nota plastborðbúnað og hefur gætt nokkurs titrings meðal almennings af þessum sökum.


Sitt er beinið úr hverri tíkinni
“Að kaupa lúxusvöru er leið til þess að auðga lífið” er haft eftir John Loring yfirhönnuði Tiffany´s. Hann bætir við “þetta snýst um að eiga það sem mann langar til en ekki það sem maður þarf”.


Á þessu ári hafa fallið frá 2 listamenn sem markað hafa spor í gullsmíði á Íslandi með óvenjulegu efnisvali og mikilli hugmyndaauðgi. Það eru félagarnir Gunnar Malmberg og Dieter Roth. Á 6. áratugnum gerðu þeir ýmsar merkar tilraunir sem margar þykja framandi enn í dag. Á sýningu sem haldin var 1960 á Holtinu mátti sjá umbrot sköpunarinnar. Sýningin vakti fádæma athygli og hneykslan margra. Á þeirri sýningu hlaut Gunnar verðlaun fyrir veggmynd sína , Tvíburarnir.


Ti
Titan hefur mannkynið þekkt frá því 1791 og er það 9. algengasta frumefni jarðar. Það hefur verið á almennum markaði síðan 1947 er ný aðferð við greiningu þess kom fram, svokölluð Kroll -greining. Títan er mjög léttur málmur, harður og tærist ekki. Annar veigamikill kostur er sá að Títan er algerlega laus við að valda ofnæmi og er því mikið notaður í allskyns “varahluti” í mannfólkið. Af þessu má sjá að Títan er kjörinn málmur í úr og skartgripi en þar sem bræðslumarkið er mjög hátt og ekki hægt að kveikja Títan saman með venjulegum áhöldum úra-og gullsmiða, eru úr og skartgripir úr Títan ennþá sjaldgæfir.


Kolefni er 6. frumefni lotukerfisins. Það á sér tvennskonar kristallagerð. Önnur er Grafít, mjúkt, dökkgrátt og glansandi efni. Grafít leiðir vel rafmagn og er einnig notað í deiglur, blandað leir. Grafít er það efni sem notað er í skriffærin sem við köllum blýanta.
Hin kristallsgerð kolefnis er demantur. Demantur er harðasta efni sem þekkt er. Auk þess að vera notaður í skartgripi er demantur mikið notaður í skurð- og slípiverkfæri.
Meðal frægustu demantanna er Koh-i-noor sem tilheyrir krúnudjásnum Bretaveldis og Cullinan sem skorinn var í 105 minni steina. Frá 1955 hefur maðurinn framleitt demanta til iðnaðarnota.


Silfurskeiðin
Mánudaginn 9. nóvember s.l. fór fram í Fossvogsskóla verðlaunaafhending í samkeppni 11 og 12 ára barna um jólasveinaskeiðina í ár. Mjög erfitt reyndist að velja út tillögum því hugmyndaauðgi barna er mikil og sköpunargleðin ekki minni. Fyrir valinu varð tillaga Ívars Orra nemanda í hópi 12 í Fossvogsskóla. Ívar Orri fékk vegleg verðlaun og öll fengu börn in viðurkenningarskjal. Í ár er það Hurðaskellir sem prýðir silfurskeiðina sem er sú 7. í röðinni.
Fyrri sveinar eru ásamt Hurðaskelli fáanlegir í gullsmíða – og gjafavöruverslunum víða um land.


Mikill kraftur hefur verið í starfi stjórnar gullsmiðafélagsins sem skipuð er vöskum konum undir stjórn Höllu Bogadóttur. Nú nýverið stóð stjórnin fyrir námskeiðum og voru fengnir til landsins sérfræðingar í steinafræði og innfatningum frá Finnlandi. Vegna þess hve vel tókst til stefnir stjórnin að auknum samskiptum við Finna sem getið hafa sér gott orð á þessu sviði. Lokapungtur námskeiðanna var haustfagnaður félagsins sem haldinn var á Nesjavöllum. Þar skemmti fjöllistamaðurinn Tómas Malmberg og félagar í gullsmiðabandinu við mikla hrifningu innfæddra sem og gestanna frá Finnlandi.


Mánaðarsteinar hafa verið vinsælir lengi þótt þeir spili ekki sömu rullu í daglegu lífi manna og áður fyrr. Að neðan eru 2 kerfi (þó ekki tæmandi) sett saman af tveimur mætum mönnum:

George Frederick Kunz: Guðmundur Bjarnason:
Janúar Granat Vatnsberi Jaspís, grænn
Febrúar Ametyst Fiskar Ónyx
Mars Blóðsteinn Hrúturinn Jaspís, rauður
Apríl Demantur Nautið Jaspís, ljósrauður
Maí Agat Tvíburarnir Geislasteinn
Júní Smaragður Krabbinn Glerhallur
Júlí Rúbín Ljónið Jaspís, brúnn
Ágúst Carnelían Meyjan Mjólkurkvars
September Safír Vogin Mosajaspís
Október Ópall Sporðdreki Hrafntinna
Nóvember Tópas Bogamaður Blágrýti
Desember Túrkós Steingeitin Mánasteinn

Talið er að Etrúrar hafi komið frá Lydiu (V-Tyrkl.) um 1200 f.kr. eða um það leyti er Tróju- stríðið stóð. Velmegun þeirra náði hámarki á 6. öld f.kr. og byggðist að hluta á þekkingu þeirra á málmsmíði. Etrúrar fluttu út gullmuni einhverja þá fegurstu í fornöld. Stórfenglegar bronsstyttur sýna yfirburði þeirra bæði tæknilega og listræna. Þekkingu þeirra nýttu Rómverjar og tóku í arf er veldi Etrúra hnignaði og var að lokum innlimað í Rómarveldi í valdatíð Súlla sem uppi var 138-78 f.kr.


Í ársbyrjun fyrir réttum 75 árum hóf Guðlaugur A. Magnússon gullsmiður starfsemi sína á Ísafirði með gull- og silfursmíðaverkstæði ásamt tilheyrandi verslun með framleiðslu verkstæðisins. Til Reykjavíkur flutti verkstæðið 1927 og hefur starfað þar síðan. Árið 1936 er hafin framleiðsla á borðbúnaði úr silfri og fyrsta vélin var keypt í janúar sama ár sem var pressa smíðuð af Vélsmiðjunni Héðni. Þess má geta að árið 1946 framleiddi smiðjan úr 497 kg af silfri 925/1000 sterling og ennfremur út 3 kg af gulli. Starfsmenn voru þá 8. Einn þeirra, Reynir sonur Guðlaugs, hefur frá 1952 verið meistari smiðjunnar.


Íslenskir gullsmiðir hafa löngum smíðað mikið af silfurborðbúnaði. Áður fyrr voru það helst skeiðar s.s. teskeiðar og matskeiðar þar sem skaftið var handgert en blaðið slegið í blýmót með stálstansi. Enn í dag eru stærri skeiðar einsog grautaskeiðar smíðaðar á sama hátt en minni skeiðar slegnar í stálstönsum í öflugum höggpressum. 12-15 mynstur eru í framleiðslu í dag, nær öll hönnuð af Íslendingum. Íslensku mynstrin eiga flest rætur sínar í tréskurðarlist. Sú listgrein hafði þróast í árþúsundir áður en landnámsmenn fluttu hana með sér til Íslands. Íslenskur borðbúnaður er einstakur og fullyrða má að hann standi jafnfætis ef ekki framar því besta sem þekkist meðal annarra þjóða enda er hönnun hans og handverk hluti ævaforns menningararfs okkar.


Raf er efni sem myndað er úr harpix sem runnið hefur af barrtrjám við Eystrasaltsstrendur Þýskalands, Póllands og Prússlands fyrir Ísöld. Oftast er raf hálfgagnsætt, gul- eða brúnleitt en einnig finnst það gráleitt, grænt eða blátt. Víkingar notuðu raf í skartgripi og eru frændur vorir Danir enn í dag hrifnir af þessu efni og nota mikið. Margir Danir trúa á lækningamátt rafs og lesa má um þann þátt á netinu: www.lfdk.dk/jack/healing.htm Af einhverjum orsökum hefur raf ekki náð miklun vinsældum hér á landi en þó eru nokkrir gullsmiðir að selja skart með eða úr rafi. Hörkustig=2,5 á Moh´s kvarða.


Ævirúnir
S.l. 6 ár hefur listamaðurinn Haukur Halldórsson ferðast um norður Evrópu í leit að ævirúnum eða prímrúnum. Áður en nútímadagatal var tekið upp voru prímrúnir notaðar um alla norður Evrópu. Í þá daga hét hver einasti dagur ársins sínu nafni og hverjum degi fylgdi ákveðin regla eða hefð og tákn (prímrún). Í dag er leitin á enda og af því tilefni kynnir Haukur afraksturinn í Kolaportinu um helgar. Gegn vægu gjaldi geta menn þar fengið á skjali umsögn og prímrún síns afmælisdags. Einnig er hægt að fræðast nánar um prímrúnir á netinu: www.islandia.is/primrun


Ópall
Nafnið er dregið af  “upala“ sem er úr Sanskrít og merkir gimsteinn. Litadýrð eðalópala er mikil. Einkum eru það rauðir, bláir og grænir litir sem ópallinn skartar. Ástæðan fyrir litadýrðinni er vatnsinnihald ópalsins sem er frá 1% uppí 15% af heildarþyngd steinsins.
Minnki vatnsinnihaldið minnkar styrkur steinsins og litadýrðin dvínar. Til að koma í veg fyrir það er gott ráð að leggja steininn í ungbarnaolíu af og til. Ópall finnst víða um norður, mið og suður Ameríku og í suður Afríku og síðast en ekki síst í Ástralíu. Hörkustig= 5,5- 6,5 á Moh´s kvarða.


Hlutfall milli silfur- og gullverðs hefur rokkað kringum 35:1 lengi vel. Minnstur munur á síðari árum er 10:1. Ástæðan var tilraun Hunt bræðranna árið 1980 til að kaupa upp silfurbirgðir og ná þannig stjórn á silfurmörkuðum. Hunt bræður höfðu efnast á olíuviðskiptum í Texas og voru milljarðamæringar þegar ævintýrið hófst. “Svo er auður sem augabragð“ og áætlunin fór útum þúfur, bræðurnir voru orðnir “bara“ milljónamæringar. Ævintýrirð olli miklum varanlegum samdrætti í silfursmíði, á Norðurlöndum er talið að samdrátturinn hafi numið 80%. Á síðasta ári komst hlutfallið uppí 60:1 og sýndi öfgarnar í gagnstæða átt. Talið er að silfurverð muni hækka á þessu ári þar sem eftirspurn er mun meri en framleiðsla. 2/3 hlutar árlegrar silfurframleiðslu fara til iðnaðar og 1/3 í listmunasmíði en 84% gullframleiðslunnar fer til listmunasmiða.


Einsog flestum er kunnugt þá fellur á silfur, m.ö.o. það oxast. Því verður að pússa það af og til. Færri vita að það sama gildir um lægri gullblöndur einsog 8 og 9 karata gull. Ástæðan er sú að silfurmagnið í þeim er hátt eða allt að 40% í sumum blöndum (legeringum). Það er regla gullsmiða að benda viðskiptavinum á þessa staðreynd. þrátt fyrir það gerist það stöku sinnum að viðskiptavinir telja sig svikna þegar falla tekur á muni úr 8 og 9k gulli. Megnið af því gulli sem selt er í innkaupalistum er 8 og 9k og oft eru gripirnir efnisrýrir í þokkabót. Því er best að kaupa gullskart úr 14k gulli eða þar fyrir ofan hjá íslenskum gullsmiðum, að sjálfsögðu, handsmíðað og efnið ekki til sparað. Það “dýra” verður oft ódýrara þegar upp er staðið.


Nýverið var haldinn aðalfundur Félags íslenskra gullsmiða. Kvennastjórn var endurkjörin undir formennsku Höllu Bogadóttur. Stjórnarinnar bíða mörg verkefni því FÍG verður 75 ára í haust og má landinn eiga von á ýmsum uppákomum af því tilefni. Fyrsta stjórn félagsins var kjörin á stofndegi þess, 19. október 1924 og var hún þannig skipuð: formaður Jónatan Jónsson, ritari Árni B. Björnsson og gjaldkeri Guðmundur Guðmundsson.


Silfur er þekkt sem sótthreinsandi efni (AgNO3) og því kom það gullsmiðum Ernu ekki á óvart þegar á fjörur þeirra rak fróðleik um lækningamátt þess. Með rafgreiningu er hreint silfur (999/1000) leyst upp í vatni blönduðu hreinu sjávarsalti. Vatnið er drukkið og berast agnirnar sem eru örsmáar eða 0.00001 míkron um allan líkamann í 1 viku á eftir og bæta, hressa og kæta. Ef slegið er inn “collodial silver“ á t.d. “AltaVista“ leitarvélinni á netinu má fræðast nánar um þennan eiginleika eðalmálmsins og þá fjölmörgu sjúkdóma sem hann vinnur á.


Í nýlegu viðtali við John Price forseta samtaka borðbúnaðarframleiðenda í Evrópu (FEC), lýsir hann miklum áhyggjum vegna vaxandi samkeppni frá Asíu. Honum segist svo frá: “Innan 10 ára verður þessi iðnaður hruninn verði ekkert að gert. Megin ástæðan er launamunur. Tímakaup í Evrópu er jafnt vikulaunum í Asíu. Evrópa er að verðleggja sig útaf mörkuðum með launastefnu sinni, það verður engin sanngirni í launamálum ef ekkert er að gera. Til að stöðva þessa þróun þurfa evrópsk fyrirtæki að bæta þjónustu, ríkisstjórnir og Evrópubandalagið þurfa að koma að þessum málum einnig. Óhæft er að asískir framleiðendur geti flutt vöru sína til Evrópu og látið stimpla þar sem evrópska framleiðslu og villt þannig fyrir neytendum sem telja sig treysta störf og njóta gæða evrópskrar framleiðslu“.


2 ungir íslendingar hafa hannað forrit sem skeytir saman mörgum rúnum í eitt tákn. Þessi aðferð við “ritun“ rúna er ævaforn. Í framhaldi að hönnun forritsins hafa þeir hafið framleiðslu á menum sem skreytt eru bandrúnum sem segja frá tilurð rúnaleturs í árdaga. Í miðju mensins er handgrafin bandrún sem táknar nafn eigandans. Kaupendahópurinn er fyrst og fremsterlendir ferðamenn. Menið er sérlega fallegur skartgripur og er ekki síður ætlaður íslendingum.
Hægt er að fræðast nánar um bandrúnir á netinu: www.alrun.is


Silfurstimplar voru upphaflega ætlaðir til þess að tryggja hagsmuni þeirra er fjárfesta í silfurmunum. Stimpillinn 925s segir að blandan sé 92.5% hreint silfur. Í dag eru silfurstimplar ekki síður gagnlegir við að ákvarða aldur muna og staðinn sem gripurinn var framleiddur á. Á heimasíðu Ernu eru upplýsingar um helstu stimpla og ágrip af sögu stimplalaga í Evrópu.


Malakít er fagurgræn steintegund sem inniheldur kopar. Hann er mikið notaður í skrautmuni og til útskurðar. Malakít finnst í Úralfjöllum, Ástralíu, N-Ameríku og Afríku þar sem stærstur hlutinn fer til koparvinnslu. Malakít er sagður létta konum barnsburð, vernda ungbörn og auðvelda þeim tanntöku. Í fornöld var hann mulinn og notaður sem augnfarði. Hörkustig 4–5 á Mohs kvarða.


Jörmundur Ingi allsherjargoði hefur hannað minnispening í anda víkingatímans. Tilefnið er að þúsöld er liðin frá því að siglingar hófust til Vínlands. Peningurinn er sleginn hér á landi (að sjálfsögðu) úr silfurblöndu sem algeng var á tímum víkinga. Stansinn var handgrafinn með samskonar verkfærum og forfeður okkar notuðu. Miðgarður gefur peninginn út og hægt er að fræðast nánar um hann á netinu: midgard.is


Í „Öldinni Átjándu” sem Jón Helgason tók saman má lesa um Jón gullsmið Ólafsson. Hann bjó í Lögmannshlíð í Eyjafirði. Var það mál manna að hann gæti smíðað hvern hlut sem hann eitt sinn augum leit. Í janúar 1781 leitaði fátækur húsmaður sem þjáðist af vatnssýki á hans náðir. Smíð-aði Jón sér lítinn bíld og stakk gat á kviðarhol mannsins, smeygði í það fjöðurstaf og lét renna út á að giska einn pott. Að því búnu setti hann tappa í stafinn og batt um sem vandlegast. Daginn eftir lét hann renna álíka mikið. Þetta endurtók hann daglega uns ekki vætlaði út um fjöðurstaf-inn. Skömmu síðar gekk sjúklingurinn frískur að verki sem aðrir menn.


„Jólavertíðin” er aðalvertíð gullsmiða. Margar verslanir byggja afkomu sína að verulegu leyti á sölu desembermánaðar. Gullsmiðir vinna því dag og nótt þann tíma sem vertíðin varir. Þeir sem hyggjast láta gera við skartgripi eða silfurmuni fyrir jól ættu því að heimsækja gullsmiðinn sinn tímanlega. Þannig getur smiðurinn sinnt verkefninu að alúð í ró, eins og heppilegast er bæði fyrir hann og viðskiptavininn.


Fjöllistamaðurinn og hönnuðurinn Tómas Malmberg hefur hannað kross sem táknar þau merku tímamót sem eru á næsta leiti. Tómas hefur getið sér gott orð erlendis og hannað skartgripi fyrir ýmsa þekkta framleiðindur. Smíðin er í samvinnu Tómasar og gullsmiðjunnar G15. Ætla má að allir þjóðhollir gullsmiðir bjóði þennan fagra grip í samkeppni við botnlausan innflutning. (des.99)


Í bók Gils Guðmundssonar „Öldin sem leið-minnisverð tíðindi 1801–1860” er sagt frá görpum úr Reykjavík sem 1823 tóku sig saman og fóru vestur að Borg á Mýrum. Þar vildu þeir grafa sér upp fé og frægð og ná í kistuhólkinn þanner segir frá í Eglu. Fyrra daginn furndu þeir hring við mó-bergs klöpp á vídd við op á stóru staupi. Víða þóttust þeir sjá málmlit á berginu og héldu þar því fram greftrinum hinn seinna daginn. Sáu þeir stein mikinn eða klett lausan á berginu og undir honum grifju, líkasta til að hafa geymt féð en halda þetta sé einhvern tíma fyrri burthorfið.


Í fróðleiksmolum frá júlí á s.l. ári var sagt frá John Price forseta samtaka borðbúnaðarframleiðenda í Evrópu (FEC). Hann spáði því að innan 10 ára yrði borðbúnaðarframleiðsla hrunin í Evrópu. Um þessar mundir er verið að flyrja hluta hinna fornfrægu silfursmiðja Georg Jensen í Danmörku til Thailands. Georg Jensen (1866–1935) var myndhöggvari þar til hann sneri sér að silfursmíði í Kaupmannahöfn 1904. Starf hans færði Dönum viðurkenningu sem einir fremstu silfursmiðir heimsins. Á Íslandi hefur smíði silfurmuna aukist jafnt og þétt s.l. 5 ár og útlit fyrir áframhaldandi vöxt meðan stöðugleiki varir. Hugsanlega mun framleiðslan ná því sem var fyrir 1980 þegar kreppa herjaði á silfursmiðjur um allan heim í kjölfar tilraunar Hunt bræðranna til að ná stjórn á silfurmörkuðum (nánar um þá í fróðl.molum nr. 43). (jan.2000)


Gullsmiðir stunda iðju sína meðan þeir halda sæmilegri heilsu. Oft eru þeir fram á níræðisaldur í fullu starfi. Þrátt fyrir smá kölkun geta þeir smíðað fallega muni. Eitt sinn kom eldri kona inná verkstæði fullorðins gullsmiðs og fór að spjalla við hann. Ég er viss um að ég geti sagt til um aldur þinn”. “Hvernig ferðu að því“, spyr smiðurinn. Konan svarar: “Stattu upp“ og bætir við: “farðu svo úr buxunum“. “Þú ert 87 ára“, segir konan. “Hvernig sérðu það“, spyr gullsmiðurinn.Konan svarar: “þú sagðir mér það í síðustu viku“.


El Dorado
Bógóta höfuðborg Kólombíu var stofnuð 1538 af ævintýramönnum sem leituðu gulllandsins. Muska indíánar höfðu sagt Spánverjum sagnir af gullnum mönnum sem sökktu gulli og gersemum í Guatavita vatn skammt frá Bógóta. Indíánarnir töldu vatnið heilagt og að þar byggi vættur sem þeir vildu friða. Þessi upphaflega sögn breyttist með tímanum og “staðsetning“ El Dorado einnig. Menn leituðu því gulllandsins víða um Suður Ameríku. Hundruð manna hafa tínt lífi í þessari leit en hvergi hefur fundist gull nema í Guatavita.


Palladíum (Pd)
William Wollaston (1766-1828) uppgötvaði palladíum árið 1803. Palladíum tilheyrir, ásamt platínum, ródíum, rúþeníum, iridíum og osmíum, svokölluðum platínumálmum. Einkenni þessa flokks eru hátt bræðslumark, mikil harka og gott viðnám gegn tæringu. Palladíum málmblöndur eru notaðar í skartgripi, tannviðgerðir og í lágstraums rafmagnstengi. Vegna spákaupmennsku og sögusagna um litlar birgðir hefur verð á palladíum rokið upp undanfarið og er þegar þetta er skrifað rúmlega 2-falt gullverð. Talið er að verðið muni, þrátt fyrir að vera í sögulegu hámarki, hækka um 50-60% á næstu dögum.


Navaho Indíánar í suðvesturríkjum BNA eru stærsta Indíánaþjóð Bandaríkjanna (160.000/1987). Þeir trúa því að allt sem lifir, skordýr, fuglar, tré, fræ og jafnvel fjöll séu óaðskiljanleg heild sem maðurinn sjálfur er þáttur í. Allir þættirnir eru jafnir og heilagir í þeirra augum. Þeir fagna nýrri árstíð með dansi og skarta búningum sem tákna einhvern þessara lifandi þátta. Navahoar eru þekktir fyrir listrænan vefnað og skartgripagerð. Gimsteinar eins og túrkós, onyx,
granat og malakít eru algengir í silfurmunum þeirra. Íslenskur listamaður, Haukur Halldórsson, dvaldi um skeið meðal Navahoa og nam m.a. sandmyndagerð sem þeir eru þekktir fyrir.


2 ungir gullsmiðir þær Helga Ósk Einarsdóttir og Alexandra Thorn, frá Svartaskógi, hafa sett á stofn verkstæði og leggja megin áherslu á víravirki. Það eru gleðitíðindi að gamalt íslenskt handverk skuli sett í öndvegi nú við dagrenningu nýrrar aldar. Óðinn forfaðir okkar germanna kom í árdaga frá Hellusundi (hinu syðra), það er því við hæfi að verkstæði þeirra stallsystra er við
Hellusund (hið nyrðra) í Reykjavík:


Um miðja síðustu öld unnu saman á verkstæði 4 gullsmiðir, 1 kona og 3 karlar, við Hverfisgötu í Reykjavík. Það var nokkuð þröngt um þá eins og algengt var í þá daga. Engin salernisaðstaða þ.a. karlarnir pissuðu í skál, sem þeir losuðu úr í vask, en gættu þess þó að snúa baki í kvenmanninn. Í þá daga vandi komur sínar á verkstæðið þekktur gullsmiður til þess að fá að gylla ýmsa muni sem hann hafði smíðað. Eitt sinn er meistari verkstæðisins hafði létt á sér í skálina góðu, en hafði ekki gefið sér tíma til að losa úr henni, kom áðurnefndur gullsmiður og vildi fá að gylla. Hann kom auga á ílát, greip um það og sagði: “nú var ég heppinn, gyllingin er ennþá volg“. Hófst hann handa við að gylla en á hann runnu tvær grímur þegar meistarinn kom og spurði: “hvað ertu að gera með hlandskálina maður“.


Réne Lalique 1860-1945
Rak gullsmíðaverkstæði í París og var einn helsti forkólfur Art Nouveu stefnunnar. Hann starfaði fyrir fína og fræga fólk þess tíma eins og t.d. Söru Bernhardt. Einnig hannaði hann m.a. glervasa og ilmvatnsglös. Ilmvatnsglösin hannaði hann fyrir Coty, Worth, Forvil, Houbigant o.fl. Slík glös kosta í dag stórfé og eru eins og vasar eftir hann mjög eftirsótt af söfnurum og fagurkerum.
Dæmi eru um að ilmvatnsglös eftir hann hafi selst á 6.000.000 króna og aldrei að vita nema eitt slíkt leynist ekki hjá ömmu gömlu!


Ungir hönnuðir
15. Alþjóðlega Hugmyndasamkeppnin fer fram á sýningunni Biennial Intereur sem haldin verður í Brussel næsta haust (2000). Samkeppnin á að hvetja til dáða unga hönnuði. Hægt er að senda inn „prótótýpur“ til 15. júlí. Sýningin er opin nemum, hönnuðum, hönnunarhópum og skólum. Verðlaunin eru 35.000 evrur. Nánari upplýsingar eru veittar í síma (00) 32-56 22 95 22/fax (00) 32-56 21 60 77


Ásatrúarmenn hafa látið slá minnispening til að fagna 1000 ára afmæli landafunda víkinga í Vesturheimi. Þeir munu selja bæði kopar og silfurpeninga slegna að hætti víkinga. Hægt verður að nálgast peningana í versluninni “hjá Magna“ á Laugavegi. Jörmundur Ingi alsherjargoði hannaði peninginn.


Í árlegri samkeppni sem stofnun sem kennd er við Fabergé heldur ár hvert hlaut ungur íslenskur gullsmiður Guðbjörg Ingvarsdóttir 1. verðlaun. Um 100 gullsmiðir frá ýmsum löndum tóku þátt í keppninni sem haldin er í St. Pétursborg þar sem Peter Carl Fabergé (1846-1920) starfaði fram að Rússnesku byltingunni 1917. Verðlaunagripirnir eru til sýnis í versluninni “Aurum“ við Laugaveg. Til hamingju Guðbjörg með þennan stórkostlega árangur!


Silfurborðbúnaður eins og aðrir vandaðir og verðmætir munir þarf góða umhirðu. 1-2svar á ári þarf að pússa hann og gott er að geyma silfur þar sem lítið loftar um það. Við uppþvottinn skal nota upphitað kalt vatn því hitaveituvatn oxar silfur. Rétt umhirða tryggir að næsta kynslóð getur tekið við borðsilfrinu óaðfinnanlegu og svo koll af kolli.


Íslenskur silfurborðbúnaður vakti mikla athygli nýverið á sýningu í Danmörku.
Fagurkerar á Norðurlöndum og í Austurlöndum nær eiga brátt kost á því að snæða með þessum fögru munum. Í byrjun er það Reykjavíkurmunstrið (hannað um 1936) og Smáramunstrið (hannað 1960) sem verða seld erlendis. Þessi munstur ásamt 5 öðrum íslenskum munstrum hafa verið eftirsótt hérlendis og einnig meðal Vestur-Íslendinga fram að þessu. Ekki hefur verið brugðið útaf upphaflegu handsmíðinni en það ásamt sígildri meistarahönnum hefur nú gert þessa listmuni að útflutningsvöru.


Demantar á tennur
Forðum skreyttu menn tennur sínar með því að grópa í þær gimsteina. Í dag er hægt að setja tannskraut, úr 22-24 karata gulli með eða án demanta, á tennur án þess að valda skaða. Tannskraut er fáanlegt hjá ýmsum gullsmiðum og tannlæknum en aðeins tannlæknar sjá um að festa það á tennur.


Enn eimir eftir af gullæðinu í Bandaríkjunum. Þar eru starfrækt samtök gullgrafara (Gold Prospectors Association of America). Stöku sinnum finna menn gull einsog hjónin Jan og Jess Harkness. Þau voru við gullleit nálægt Stanton í Arisona. Þegar málmleitartæki þeirra gaf frá sér hátt hljóð héldu þau að þau hefðu fundið skeifu. Annað kom á daginn því þarna var um eins kílóa gullmola að ræða. Sögur af slíkum fundum halda áhugasömum gullleitarmönnum við efnið. Á Íslandi hefur Orkustofnun kannað hvort hér á landi finnist gull í samvinnu við fyrirtækið Málmís hf. Bíða margir spenntir eftir niðurstöðu.


Þegar flett er bókinni Gullsmiðatal (útg. FÍG 1991) er staðnæmst við mynd af svipmiklu andliti. Í fyrstu virðist sem tíminn hafi rist andlit mannsins. “Hannes Guðmundsson (1841-1871) var mikill dugnaðarmaður við búskap svo um var talað. Úr málmi og tré smíðaði hann nytjahluti, sparaði aldrei efnið og var samt ódýrari en aðrir. Hann var vinnuvíkingur, til dæmis smíðaði hann 6-10 nýsilfurbúna tóbaksbauka á viku og 2-3 vandaðar svipur á dag. Hannes lagði mikið upp úr því að ungt fólk yrði sér úti um góða menntun”.

Auglýsing, í fullu gildi, úr 1. tbl. 19. júní, 19. 6. 1951

Karl Guðmundsson myndskeri frá Þinganesi.

Að neðan má finna upplýsingar, og hvar finna má upplýsingar, um listamanninn Karl Guðmundsson myndskera (12.3.1905 – 18.9.1950).  Karl hannaði marga fagra muni sem Erna framleiðir og segja má að hönnun hans sé tímalaus. 

Tíminn 28. september 1950

Austfirskir þættir

Brýnið

Lampafótur eftir Karl, mynd úr bókinni ,,af Héraði og úr Fjörðum” eftir Eirík Sigurðsson, útg. Skuggsjá 1978.

 

Sporgöngumenn.

Íslenskir gullsmiðir hafa löngum smíðað mikið af silfurborðbúnaði. Áður fyrr voru það helst skeiðar s.s. teskeiðar og matskeiðar þar sem skaftið var handgert en blaðið slegið í blýmót með stálstansi. Enn í dag eru stærri skeiðar einsog grautaskeiðar smíðaðar á sama hátt en minni skeiðar slegnar í stálstönsum í öflugum höggpressum. 12-15 mynstur eru í framleiðslu í dag, nær öll hönnuð af Íslendingum. Íslensku mynstrin eiga flest rætur sínar í tréskurðarlist. Sú listgrein hafði þróast í árþúsundir áður en landnámsmenn fluttu hana með sér til Íslands. Íslenskur borðbúnaður er einstakur og fullyrða má að hann standi jafnfætis ef ekki framar því besta sem þekkist meðal annarra þjóða enda er hönnun hans og handverk hluti ævaforns menningararfs okkar.

Til gamans langar mig að nefna 2 íslenska gull-og silfursmiði sem falla vel undir starfsheitið “sveitasmiður” sem algengt var um þá menn er gátu smíðað nánast hvað sem er.  Þessir menn eru góðir fulltrúar undangenginna kynslóða sem kynntust ekki iðnbyltingunni sem sótti okkur heim seinna en önnur lönd.

Í „Öldinni Átjándu” sem Jón Helgason tók saman má lesa um Jón gullsmið Ólafsson. Hann bjó í Lögmannshlíð í Eyjafirði. “Var það mál manna að hann gæti smíðað hvern hlut sem hann eitt sinn augum leit.  Í janúar 1781 leitaði fátækur húsmaður sem þjáðist af vatnssýki á hans náðir. Smíðaði Jón sér lítinn bíld og stakk gat á kviðarhol mannsins, smeygði í það fjöðurstaf og lét renna út á að giska einn pott. Að því búnu setti hann tappa í stafinn og batt um sem vandlegast. Daginn eftir lét hann renna álíka mikið. Þetta endurtók hann daglega uns ekki vætlaði út um fjöðurstafinn. Skömmu síðar gekk sjúklingurinn frískur að verki sem aðrir menn”.

“Hannes Guðmundsson (1841-1871) var mikill dugnaðarmaður við búskap svo um var talað. Úr málmi og tré smíðaði hann nytjahluti, sparaði aldrei efnið og var samt ódýrari en aðrir. Hann var vinnuvíkingur, til dæmis smíðaði hann 6-10 nýsilfurbúna tóbaksbauka á viku og 2-3 vandaðar svipur á dag. Hannes lagði mikið upp úr því að ungt fólk yrði sér úti um góða menntun” segir í Gullsmiðatali frá 1991.

Gull-og silfursmiðir sem voru atkvæðamiklir í borðbúnaðarsmíði á 20. öld.

Guðjón Bernharðsson  rak fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík silfursmiðju sem var mjög vel tækjum búin. Árið 1960 seldi Guðjón verksmiðju sína og sameinaðist hún þá Gull-og silfursmiðjunni Ernu hf. Erna hf hefur haldið áfram smíði nokkurra munstra sem Guðjón framleiddi s.s. Gullstör, Túlípani og Rós. Fjölskylda Guðjóns rak með miklum myndarbrag Silfurbúðina í Kringlunni í Reykjavík sem var stærsta verslun sinnar tegundar hér á landi.  Fyrir fáum árum var rekstrinum hætt.

Silfursmiðjan hf var rekin af  nokkrum þekktum úra- og gullsmiðum í Reykjavík. Kornelíus Jónsson úrsmiður var einn þeirra og framleiðir Erna hf enn nokkur þeirra borðbúnaðarmynstra sem framleidd voru í gömlu silfursmiðjunni.  Þau eru seld í verslum Kornelíusar við Bankastræti.

Jón Sigmundsson er elsta skartgripaverslun á Íslandi. Þar var framleiddur borðbúnaður fyrir allmörgum árum síðan. Í dag rekur Símon Ragnarsson gullsmiður ásamt fjölskyldu sinni fyrirtækið af myndarskap við Laugaveg og útibú í Spönginni Grafarvogi.

Í febrúar 1924 hóf Guðlaugur A. Magnússon gullsmiður starfsemi sína á Ísafirði með gull- og silfursmíðaverkstæði ásamt tilheyrandi verslun með framleiðslu verkstæðisins. Til Reykjavíkur flutti verkstæðið 1927 og hefur starfað hér síðan. Árið 1936 er hafin framleiðsla á borðbúnaði úr silfri og fyrsta vélin var keypt í janúar sama ár sem var pressa smíðuð af Vélsmiðjunni Héðni. Þess má geta að árið 1946 framleiddi smiðjan úr 497 kg af silfri 925/1000 sterling og ennfremur út 3 kg af gulli. Starfsmenn voru þá 8. Einn þeirra Reynir sonur Guðlaugs var frá 1952 til 2001,er hann fell frá, meistari smiðjunnar.

Reynir byrjaði að starfa með föður sínum daginn eftir fermingardag sinn 1944. Hann hefur nám í Iðnskólanum og líkur sveinsprófi 1950. Er faðir hans fellur frá 1952  tekur hann við verkstæði föður síns aðeins 22 ára. Nokkrir helstu starfsmenn verkstæðisins hættu og stofnuðu nýtt fyrirtæki til höfuðs Ernu hf. Með harðfylgi tókst Reyni kornungum að halda merki föður síns á lofti. Meistararéttindi hlaut Reynir eftir fráfall föður síns ári áður en venja var til.  1955 heldur Reynir til Þýskalands og dvelur þar um skeið við nám í gullborginni Pforzheim í Svartaskógi.  Árið 1959 starfaði Reynir í Kaupmannahöfn á verkstæði Georg Jensens aðallega við skartgripasmíði.  Silfursmíði á Íslandi náði undir hans stjórn, og Hermanns Hermannssonar er sá um fjármál fyrirtækisins, að verða stóriðja.   Jafnvel Danir, einir fremstu silfursmiðir heimsins, skildu ekki hvernig hægt var að ná slíkri markaðshlutdeild sem silfurborðbúnaður á Íslandi naut. Ár hvert fram til 1980 var framleitt úr 1-2 tonnum af silfri aðallega borðbúnaður í tuga eða hundruða þúsunda vís.  Þess má geta að fjölmargir Vestur Íslendingar söfnuðu og safna enn silfri frá Guðlaugi A. Magnússyni.  1980 var árið sem gerbreytti borðbúnaðarsmíð í heiminum.  Talið er að á Norðurlöndum hafi samdrátturinn verið 80%.  Ástæðan var tilraun auðugra Bandaríkjamanna til að ná stjórn á silfurmörkuðum.

Hönnunin

Ég hef sett, að neðan, upp töflu með 10 helstu borðbúnaðarmynstrunum.  Þau eiga það sameiginlegt að vera enn smíðuð.  Flest eru frá Guðlaugi A. Magnússyni en hann er bæði helsti frumkvöðull og helsti silfurborðbúnaðarsmiður síðustu aldar.  “Tíminn” hefur valið úr þau munstur sem eru framleidd enn í dag og hafa verið frá 1946 algengustu munstrin á íslenskum heimilum og vinsæl víðar m.a. í Norður Ameríku meðal Vestur-Íslendinga einsog sagt var frá.

Mynd 3:

Starfsmenn Ernu ehf 1948..

Guðlaugur A magnússon situr fyrir miðju ásamt starfsmönnum Ernu. Frá hægri: Jens Guðjónsson, Sigurður Adolf Hermannsson, Hans ? , Reynir Guðlaugsson, Stefán Albertsson, Hermann Kjartansson og Harold Wright.

Að lokum vil ég nefna einn góðan fulltrúa þeirra manna er tóku drjúgan þátt í hönnun silfurmuna á síðustu öld.  Karl Guðmundsson myndskeri frá Þinganesi lærði tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni einum helsta listamanni þjóðarinna á síðustu öld.  Myndskerar unnu mikið með gull-og silfursmiðum að ýmiskonar hönnun.  Þeir höfðu tengsl við “upprunann”, þeirra arfur nær aftur í landnám einsog gull-,silfur- og sveitasmiðanna.  Ýmsir minjagripir, borðbúnaður og skart sem einkennist af hinu sér íslenska höfðaletri og margslungnum fléttum eru í dag framleiddir, meira en hálfri öld eftir að Karl skar út frumgerðina.

Mynd 4:

Úr handsmíðadeild Gull og silfursmiðjunnar Ernu ehf.

Mynstur.              Ár.                  Hönnun.                  Framleiðandi.               Lýsing.

 

Erna 1936 Guðlaugur A. Magnússon Erna hf Margir telja að Guðlaugur hafi haft lilju í huga þegar hann teiknaði Ernumunstrið. Nafnið er frá dóttur hans Jónínu Ernu komið.
Renaissance 1946* Guðlaugur A. Magnússon Erna hf Augljós tengsl við endurreisnartímabilið einsog nafnið segir.
Kaktus 1946* Guðlaugur A. Magnússon Erna hf Flestir þekkja danska kaktusinn frá Georg Jensen. Líklega er sá íslenski svar við hinum danska.
Vor 1954 Bárður Jóhannesson Erna hf Vorið táknað með leikandi léttum línum vorblóma.
Smári 1959 Jens Guðjónsson Erna hf Undir Evrópskum samtíma áhrifum, hefur heillað ákveðin hóp umfram önnur munstur.
Gullstör um1950 Gunnar Bernhard Plútó hf/

Erna hf

Hannað eftir námsdvöl Gunnars í Þýskalandi. Ber svipmót sins tíma en er klassískt  og vinsælt enn í dag.
Rós um1950 Karl Guðmundsson Plútó hf/

Erna hf

Augljós uppruni en stílfært af hagleik hins íslenska myndskurðarmeistara.
Túlípani um1950 Karl Guðmundsson Plútó hf/

Erna hf

Túlípani stílfærður á sama hátt og Rósin.
Prinsessum. Kornelíus Jónsson Silfursmiðjan

hf/Erna hf

Danskt munstur.
Reykjavík 1946* Guðlaugur A. Magnússon Erna hf Táknar öndvegissúlurnar. Augljósar rætur í fléttum víkingatímans. Líklega vinsælasta íslenska munstrið.

*Framleiðsla hefst á árabilinu 1936 til 1946 en það ár eru öll mót endurgerð. Fyrri stansar höfðu verið gerðir hér heima af vanefnum. Tækifærið nýtt  og menn einsog Karl Guðmundsson og ? aðstoðuðu Guðlaug við að “stílfæra” munstrin.

Eftirmáli.

Upplýsingar voru að skornum skammti varðandi þessa iðngrein á Íslandi. Mikil en jafnframt lærdómsrík vinna var því við þessa ritgerðarsmíð. Ég vona að komandi kynslóðir kunni að meta þessa listgrein sem silfursmíði er og jafnvel þekkja þá sem komu við sögu hennar hér á Fróni.

Reynir Már Ásgeirsson.

_______________

-o-

Glænýr hraunmol i úr Holuhrauni sem er á leið til Kína.

-o-

Gull í Luxemborg 2014.

Skemmst er frá því að segja að kokkalandsliðið sigraði í keppni um kalt borð þar sem Faber Islandicus silfurborðbúnaður fékk notið sín. Til hamingju snillingar!  Faber Islandicus línan var kynnt fyrst á HönnunarMars s.l. vor í Hörpu og sjá má myndir hér fyrir neðan.

-o-

Þessi fallegi spaði eftir Guðlaug A. Magnússon stofnanda Ernu kom inn til okkar í hreinsun. Sennilega smíðaður á fjórða áratugnum.

-o-

Ásamt því að smíða jólaskeiðar og servíettuhring ársins vinnum við nú fyrir kokkalandsliðið. Gripirnir byggja á línu, Faber Islandicus, sem sýnd var á HönnunarMars s.l. vor í Hörpunni.

Nokkrir gripanna sem sýndir voru á HönnunarMars 2014.

Systa Björnsdóttir og Sara Steina á lokametrum, allt að smella saman.

Skeiðar fyrir kokkalandsliðið, kokkaðar í sýru sem seint teldist verðlaunagrautur.

-o-

Októberfest í ERNU

Halla Boga með nemendur sína úr Tækniskólanum að kynna sér silfursteypu

í októberbyrjun. Hún hafði með sér fínustu veitingar.

ERNA þakkar þessu efnilega unga fólki innlitið, áhugann og skemmtilegt spjall.

-o-

Tæknideildin að vinnu við gerð jólaskeiðastansins í ágústlok 2014.

-o-

Myndir frá heimsókn iðnaðarráðherra í ERNU, á 90 ára afmælisárinu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI ásamt þeim Ásgeiri og Söru Steinu í ERNU.

Gestirnir skoða Óskabeinið sem ERNA framleiðir og lesa má um hér fyrir neðan.

Kristrún Heimisdóttir framkvæmdastjóri SI, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir skoða skeiðastans frá árinu 1930.

-o-

Steinunn frænka, 2. frá hægri, kom með þessar föngulegu konur í heimsókn. Þær vildu fá að vita sitthvað um gull-og silfursmíði og heita f.v. Margrét, Brynhildur, Kristín, Steinunn frænka og svo vantar, í augnablikinu, nafnið á þeirri lengst til hægri en hún er frá Rússlandi og stundar fræðistörf á Íslandi. Þökkum þeim kærlega góðar gjafir og áhugann sem þær sýndu gamla verkstæðinu.

-o-

Ungir frumkvölðlar er verkefni sem er hluti námsefnis í Verzlunarskóla Íslands. “Við ákváðum að við vildum framleiða hálsmen og vissum alltaf frá upphafi að við ætluðum að styrkja gott málefni. Við heilluðumst af óskabeininu sem er nú er búið að vera í tísku úti í Ameríku,” segir Helga Hauksdóttir en hún ásamt Laufeyju Rut Guðmundsdóttur, Jónu Kristínu Benediktsdóttur, Guðnýju Ósk Karlsdóttur og Ólöfu Marý Waage Ragnarsdóttur stofnuðu fyrirtækið Infinity í frumkvöðlafræði í Verzló.

Grein um stúlkurnar í Fréttablaðinu þar sem fram kemur að óþekki hundurinn Kría át fyrsta óskabeinið.

Grein á Trendnet um frumkvöðlana.

-o-

Pétur Eyþórsson Glímukóngur Íslands, sem unnið hefur Grettisbeltið síðustu 5 ár og átta sinnum alls, og Marín Laufey Davíðsdóttir, Glímudrottning Íslands undanfarin 3 ár, með Freyjumenið. Íslandsglíman verður háð n.k. laugardag  þ. 5. apríl, sjá frétt á Mbl.

-o-

Þráinn, Sara Steina, Reynir og Ingibjörg Þorbergs.

Gull- og silfursmiðjan Erna ehf 90 ára

 

~ Gjöf frá “Ernu” gleður ~

 

  Gjöf frá “Ernu”  gleður alla

Því gjöfin fagra dýrmæt er.

Já, heillarík vor hjörtu snertir.

Hugurinn ljómar og svífa fer.

 

Hin fornu tákn og fögur ný

fagmennirnir listrænt smíða.

Þau listaverk um löndin mörg

víst lifa munu, gleðja og prýða.

 

Skartgripir og allskyns skeiðar,

ein þó skærust virðist mér.

Margt hér fyrir unga sem aldna,

Smíðin öll heillavænleg er.

Ingibjörg Þorbergs

Ingibjörg og Ösp Ásgeirsdóttir, tónlistarkonur.

-o-

Strákarnir okkar að smíða jólaskeiðarnar 2013 eftir teikningu Sóleyjar Þórisdóttur.

-o-

Hnífur í munstri sem kallast Heimir frá Guðjóni Bernharðssyni. Á blaðinu stendur Guðjón Bernharðsson Gullsmiður Akureyri.

-o-

Það nýjasta frá okkur eru vandaðar úravöggur fyrir sjállfvindur.

Harpa Kristjánsdóttir sem sér um gull- og sílfurdeildina í Tækniskólanum kom í heimsókn með áhugasama nema. Þeir vildu fræðast um slípun og póleringu auk þess sem þeir fylgdust með því hvernig skeiðablöð eru hvestuð. Gömul steypumót vöktu einnig athygli þeirra. Við í Ernu þökkum þeim kærlega fyrir innlitið og óskum þess að námið sækist vel.

-o-

Sérsmíðuð YRSA Reykjavík.

-o-

Nú í september er hafin smíði á jólaskeiðinni 2013. Til hliðar við skeiðina er stansinn sem eins og skeiðin er smíðaður í Ernu

-o-

Hannes Hübner lærlingurinn okkar lauk sveinsprófi í dag, 31. maí 2013.

Til hamingju Hannes og Uroog Hübner.

Sveinsstykkin sem 6 nemar luku nú í vor

-o-

Hér má sjá grein um Kristján V. Eyjólfsson gullsmið og nælu sem  hann smíðaði fyrir Englandsdrottningu.

-o-

Næsta YRSA væntanleg með vorinu.

YRSA Reykjavík, handsmíðaður silfurkassi með sérsaumaðri ól úr laxaroði, japönsk sjálfvinda með 21 rúbín steini. Skartar svörtum 10p demanti

-o-

Áhrifamikil grein um Sigurð Bjarnason gullsmið frá Rein.

-o-

Þráinn, nemi, í starfsþjálfun í London hjá Kristjáni Eyjólfssyni sem einnig lærði hjá Ernu hf. Kristján hefur gert garðinn frægan á Englandi og þeir félagar munu í sumar m.a. smíða muni fyrir Chelsea Flower Show

-o-

Hér má sjá myndband af smíði þríkrossins sem umboðsmenn hans í Þýskalandi gerðu.

-o-

YRSA Reykjavík (1/2 2013), kvenúr með svissnesku Ronda gæða-verki í eðalstálkassa, 50 metra vatnshelt. Verð 14.900,-

-o-

Gamall stafur illa rifinn enda úr þunnu efni, fyrir og eftir

-o-

Silfur brætt í barnaskeiðar

10 skeiðar nást úr þessum teini þegar búið er að valsa hann niður.

-o-

Silfurmen steypt eftir frummynd sem skorin hefur verið út á fyrri parti síðustu aldar. Þeir voru 3 myndskerarnir sem unnu fyrir verkstæðið: Ríkarður Jónsson og nemi hans Karl Guðmundsson frá Þinganesi og hans nemi Sveinn Ólafsson. Allir eru þeir gengnir en þeirra hugverk eru framleidd enn hér í Ernu.

-o-

Heimsókn Steinþórs Guðbjartssonar blaðamanns og Ragnars Axelssonar ljósmyndara frá Mbl. í Ernu þann 21.12. 2012.

-o-

Hönnuður jólaskeiðarinnar, listakonan Sóley Þórisdóttir, heimsótti okkur með frumburð sinn Iðunni Guðnýu.

-o-

Smíðar nælu fyrir drottningu.

Fyrir nokkrum árum var haldin sýning í Norrænahúsinu þar sem kynnt voru verk fjögurra merkustu gullsmiða 20. aldar frá hverju Norðurlandanna. Frá Íslandi voru það Leifur Kaldal, Jóhannes Jóhannesson, Jens Guðjónsson og Katrin Didriksen. Þrjú þau síðastnefndu lærðu á verkstæði Guðlaugs A. Magnússonar sem frá árinu 1947 heitir Gull-og silfursmiðjan Erna.

Nú hefur fyrrum nemi á sama verkstæði  gert garðinn frægan í Bretlandi þar sem hann var fenginn til að smíða nælur fyrir 300 hefðarkonur og eina að auki fyrir Elísabetu  Englandsdrottningu. Við á gamla verkstæðinu erum stolt af Kristjáni V. Eyjólfssyni og afrekum hans.

Myndir af smiðnum, nælunni og lukkulegum eiganda hennar á Mbl.is

-o-

Nýtt úramerki á Íslandi er öspin okkar. Ösp er armbandsúr og 8GB Mp4 spilari fyrir fólk sem er ungt í anda. Fáanlegt í 2 gerðum, Ríma (18.750,-) og Þula (21.500,-).

Fyrir réttum 1700 árum gerðist saga sem markar upphaf þess að kristnir menn fóru að nota helsta tákn sitt, krossinn. Á þessu herrans ári 2012 hefjum við af því tilefni framleiðslu á menum sem teiknuð voru hér í Ernu eftir hugmynd Dr. Gunnars Jónssonar.

-o-

-o-

11.11.11

11.11.11 kom nýjasta YRSAn. Stálúr, Miyota 82S0 sjálfvinda.

-o-

Nú í haust höfum við unnið að smíði víkinga sem Ernst Backman skóp fyrir Sögusafnið sem hann rekur í Perlunni í Öskjuhlíð. Hannes Hübner lærlingurinn okkar fékk að spreyta sig á þessu verkefni enda sjálfur víkingur úr Gautalandi.

-o-

Fyrir nokkru útbjuggum við í Ernu barmmerki með mynd af frelsishetju frænda vorra Færeyinga, Nólseyjar Páli. Í sumar var starfsmaður okkar staddur í Færeyjum og heimsótti Nólseyju og tók þar mynd af þessu minnismerki um kappann.

-o-

Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður var svo vinsamleg að koma með þessa hnappa til að sýna okkur, starfsfólki Ernu. Þá smíðaði Guðlaugur A. Magnússon (1902-1952) stonandi Ernu hf.

-o-

Þessar silfurskálar voru smíðaðar í sumar fyrir listakonuna Kolbrúnu Hjörleifsdóttur úr Mýrdal. 

-o-

Fjörusteinninn 2011 umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna var afhentur nú fyrir skemmstu. Það var fyrst árið 2007 sem Vignir Albertsson kom að máli við okkur og fékk okkur til að setja saman grip úr fjörusteini og silfri.

-o-

Úr gömlu vélsmiðjunni á Þingeyri.

-o-

Lykill að velgengni.

Viðskiptavinur okkar sem starfar sem smiður í Noregi sagði okkur hér í Ernu frá því að iðnaðarmenn frá Íslandi væru fljótari að skilja vinnuteikningar og í að átta sig á verkefnum en aðrir. Hvernig stendur á því. Gæti það verið tungumálið? Við höfum í kynslóðir talað mál sem breyst hefur mun hægar en önnur mál og er því okkur gegnsætt. Við skiljum heiti hluta með öðrum hætti, sjáum þá auðveldlega fyrir okkur og eigum auðvelt með að raða upp í huganum  staf, bita, stoð og sperru.

-o-

Grettisbeltið er merkasti og sögufrægasti gripurinn í íþróttasögu Íslands. Í Ernu hf höfum við verið þess heiðurs aðnjótandi undanfarin ár að bæta nýjum skildi ár hvert á þennan fagra grip. Pétur Eyþórsson glímukappi úr KR er handhafi Grettisbeltisins og ber titilinn glímukóngur Íslands, að okkur telst í 6. sinn. Grettisbeltið var smíðað af Erlendi gullsmið Magnússyni en fyrst var keppt um það 1906. Glímudrottning Íslands er Marín Laufey Davíðsdóttir og hampar hún Freyjumeninu sem smíðað var hér í Ernu hf árið 2000 úr silfri, gulli og perlum.

-o-

Hér má sjá nýjasta YRSU úrið. Skemmtileg sjálfvinda fyrir karlmenn á fínu verði.

-o

Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður var, 1. janúar 2011, sæmd riddarakrossi fyrir framlag til þjóðlegrar gull- og silfursmíði.http://www.mbl.is/frettir/forsida/2011/01/01/tolf_saemd_falkaordu/  Hér má sjá skemmtileg viðtal við hana http://www.youtube.com/watch?v=iXeZPyHg1ak  Dóra hefur safnað miklum fróðleik um gull-og silfursmíði og unnið fyrir Félag íslenskra gullsmiða í áratugi ómetanlegt starf , var m.a. fyrst kvenna formaður félagsins. Starfsfólk Ernu óskar henni til hamingju og þakkar gott samstarf og vináttu.

-o-

Þessi Renaissance hnífspaði og tertuhnífur voru smíðaðir 1952 árið sem Guðlaugur A. Magnússon stofnandi Ernu lést og sonur hans Reynir tók við sem meistari smiðjunnar. Eins og spaðann, hér að neðan, fengum við þessa gripi til að lagfæra.

-o-

Undanfarin ár hefur gull og silfur hækkað mikið og síðustu vikurnar hefur silfur tekið mikinn kipp. Grafið að ofan sýnir hækkun úr $18 í ágúst uppí tæpa 28 dollara nú í byrjun nóvember 2010. Gull og silfurverð er skráð í dollurum á Troy únsu sem er 31.1034768 gr. Troy únsa er kennd við Troyes í Frakklandi, ekki hina fornu borg Tróju eins og margir halda, þar sem frægur markaður var haldinn allt frá 5. öld. Á dögum Karlamagnúsar varð þessi markaður þekktur utan héraðsins (Champagne) og menn komu víða að. Þannig breiddist út þessi mælieining. Á grafinu að neðan sést hækkun síðustu 5 ára, þar sést að silfur hefur nær fjórfaldast í verði.

-o-

Margt skemmtilegt rekur á fjörur okkar hér í Ernu. Þennan spaða gerðum við við, hann er eftir Björn Halldórsson leturgrafara. Í fróðleiksmolum Ernu sem birtust í Sjónvarpshandbókinni á árunum  1997- 2000 má finna þessa klausu um Björn: “Björn leturgrafari
var einn þeirra manna er settu svip á bæinn um miðja þessa öld. 1936 fékk hann leyfi Páfagarðs til að teikna innsigli Meulenbergs biskups kaþólskra hér á landi. Eftir að hafa smíðað innsiglið fór hann á fund Páfa sem blessaði það og bauð Birni vinnu sem leturgrafari Páfagarðs. En í bænum við sundin beið íslensk stúlka, því voru það Íslendingar sem nutu starfa Björns. Björn lést árið 1971. Sonur hans Ívar hefur á lofti merki hans sem meistarasmiður og leturgrafari til dagsins í dag.”

-o-

Í samvinnu við Atson leðuriðju bjóðum við nú armbandsúrin okkar YRSU með mjög vönduðum íslenskum ólum úr roði og í ýmsum litum. Þannig útbúin kosta úrin 37.500,- og hæfa bæði dömum og herrum.

-o-

2009 eru 85 ár frá því Guðlaugur A. Magnússon, stofnandi Ernu ehf, hóf starfsemi sína á Ísafirði. Það er því við hæfi að nú á aðventunni verða 2 sýningar honum til heiðurs. Á Ísafirði hefur verið sett upp sýning á jólaskeiðum en Guðlaugur hóf smíði þeirra árið 1946. Í Árbæjarsafni er sýning á 2 borðbúnaðarmynstrum Guðlaugs, Kaktus og Reykjavík.

-o-

Fegurðarsamkeppni

er þetta ekki heldur útskrift gullsmíðasveina í vorblíðunni 2009. Á myndinni frá vinstri: Hilmar Einarsson formaður prófnefndar, Arna Arnardóttir, Helena Rós Róbertsdóttir, Júlía Þrastardóttir, Laila Björk Sveinsdóttir, Sigrún Sigurjónsdóttir og Stefanía Jónsdóttir ásamt Reyni Má Ásgeirssyni formanni FÍG.

-o-
,,Blessa þú Guð hverja hagleikans hönd”.

Nú í apríl (2009) fóru nokkrir áhugamenn um myndskurð, sem höfðu verið á námskeiðum í vetur hjá Erni Sigurðssyni myndskurðarmeistara, í vettvangsferð og skoðuðu myndskurð í Alþingishúsinu, Baðstofu Iðnaðarmanna og í Kristskirkju. Á myndinni að ofan segir Ásgrímur Jónasson formaður Iðnaðarmannafélagsins frá sögu þess og endurreisn baðstofunnar sem var innréttuð í gamla iðnskólanum árið 1926. Henni er lýst þannig í tímariti iðnaðarmanna: Skarsúð er á sperrum en reisusúð á stöfnum og setbekkir í hverju stafgólfi.
mari er undir hverri sperru og í hvern þeirra er gerð hönd sem heldur á kyndli. Hún er skorin úr íslensku birki. Fornar ljósakrónur eru í skammbitum og við innganginn í baðstofuna er kolur.

Þeir Hannes Ólafsson og Örn Sigurðsson skoða hér biskupsstólinn í Kristskirkju sem Ríkarður Jónsson skar út. Gaman er að geta þess að Örn Sigurðsson nam hjá Sveini Ólafssyni er nam hjá Karli Guðmundssyni sem nam hjá Ríkarði Jónssyni. Þrír síðastnefndu hafa hannað muni fyrir Ernu ehf. Laugardaginn 16. maí (2009) verður nemendasýning á verkstæði Arnar í Hamraborg 1 , Kópavogi.

-o-

Á aðalfundi Félags íslenskra gullsmiða 7. mars s.l. var kjörinn nýr formaður, Reynir Már Ásgeirsson. Á myndinni tekur hann við fundahamri félagsins úr höndum fráfarandi formanns Hauks Valdimarssonar. Með þeim á myndinni er fundarstjórinn Sigurður G. Steinþórsson. Fleiri myndir á ,“fésbók”.

-o-

  1. febrúar s.l. átti stóra pressan okkar 60 ára afmæli. Hún var smíðuð í Charleroi, Belgíu árið 1949. Hámarksslag er 160 tonn á fersentimeter sem hentar vel í borðbúnaðarframleiðslu.

Þorrablót Ernu var haldið í febrúar 2009 á 85 ára afmæli verkstæðisins.

-o-

Yrsa hélt sína árlegu jólatónleika í smiðjunni okkar nú á aðventunni. Hún lék Heims um ból og nokkur íslensk lög m.a. eftir Ingibjörgu Þorbergs frænku sína sem gaf henni hvítu húfuna sem hún heldur mikið uppá.

-o-

Hurðaskellir Ívars Orra

Jólaskeiðin verður næsta sýning Hönnunarsafns Íslands í sýningarsalnum á Garðatorgi í Garðabæ.  Þar verða sýndar silfurskeiðar tegndar jólahaldi og jólasveinum sem framleiddar hafa verið á Íslandi allt frá árinu 1946.

Sýningin verður opin fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá kl. 14:00 til kl. 18:00 frá 15. nóvember 2008 til 1. febrúar 2009. Hægt er að fá leiðsögn um sýninguna og tekið er á móti hópum utan opnnunartíma eftir samkomulagi.

Fyrsta sunnudag í aðventu kl. 13:30 flytur Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins, erindið Íslenska jólaskeiðin, saga, stíll og hefðir, í Garðabergi við hliðina á sýningarsal Hönnunarsafnsins.

-o-

Grein um Njáluarmbandið í fréttablaðinu

-o-

Heimasíða Sóleyjar Þórisdóttur

-o-

Úr sumarferð starfsmanna Ernu fyrir 60 árum:

Nú í sumar (2008) var starfsmaður Ernu á ferð frá Akureyri til Húsavíkur og kom við á Samgönguminjasafninu á Ystafelli og sá þar mótorinn úr fremri bílnum sem er Lincoln Zephyr 1937, 12 strokka. Sá aftari er Buick 1948.

-o-

Fjörusteinninn 2008, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna. Gullsmiðir Ernu ehf fengu það verkefni að útbúa þennan grip sem er úr silfri og fjörugrjóti. 

Það var Vilhjálmur Fenger, forstjóri Nathan og Olsen, sem tók við Fjörusteininum úr hendi Júlíusar Vífils Ingvarssonar, formanns stjórnar Faxaflóahafna sf.”  meira

-o-

“Gulleggið 2008” verðlaun frumkvöðlakeppni “innovit” í höndum höfundar og smiðsins Reynis Más sem er 4. ættliður gullsmiða í fjölskyldufyrirtækinu.

-o-

Sóley Þórisdóttir með útskriftarverkefni sitt í vöruhönnum við MHÍ sem hún vann í samvinnu við Ernu ehf og Álverið ehf. Ef smellt er á myndina kemur upp frétt úr Fréttablaðinu.

Munirnir eru fáanlegir í vefversluninni Birkiland:

http://www.birkiland.is/categories/accessories/kitchen-and-tabletop/h-ld-utensils#