Úr sögu fyrirtækisins.

The same family has operated Gull- & Silfursmiðjan since 1924. The main line of production is silverware, jewelery, engagement rings and various items related to the Vikings. From the very beginning, top designers and skilled craftsmen have worked at Erna Ltd. and their jewelery is worn with pride around the world.
Saga Gull- og silfursmiðjunnar Ernu nær aftur til 1924 þegar Guðlaugur A. Magnússon setti á stofn verkstæði á Ísafirði. Til Reykjavíkur fluttist hann 1927 með viðkomu í Hafnarfirði. 1936 hefur hann framleiðslu á silfurborðbúnaði og þar á meðal jólaskeiðum. 1947 er tækjakostur endurbættur og reksturinn stórelfdur, þá er framleiðslu þátturinn gerður að hlutafélagi undir nafninu Erna en dóttir Guðlaugs hét Jónína Erna og þaðan er nafnið komið. Verslunin starfaði áfram undir hans nafni.
Margir þekktir listamenn teiknuðu borðbúnaðarmynstur og jólaskeiðar Guðlaugs auk hans sjálfs. Má nefna Eggert Guðmundsson, Jens Guðjónsson er nam hjá Guðlaugi, Stefán Snæbjörnsson og Karl Guðmundsson myndskera. Reynir sonur Guðlaugs sá um tæknilausnir og hönnun á aukahutum en hann byrjaði daginn eftir fermingu að vinna með föður sínum. Í seinni tíð hafa konur bæst við þessa flóru hönnuða eins og listakonurnar og hönnuðirnir Sóley Þórisdóttir og Ragnhildur Sif Reynisdóttir.
Í dag eru 3ja og 4ða kynslóð fjölskyldunnar við störf í Ernu og halda uppi heiðri frumkvöðlanna eftir bestu getu. Nefna má nýjungar eða réttara sagt hugmyndir fengnar að láni frá frumkvöðlunum því segja má að alltaf sé hægt að sækja í sögusjóð fyrirtækisins.  Jólabjallan sem kemur út árlega er hönnuð af Ösp Ásgeirsdóttur og jólasveinaskeiðarnar sem grunnskólabörn hafa hannað utan fyrstu skeiðarinnar sem Eggert Guðmundsson listmálari teiknaði á 5. áratug síðustu aldar. Þessar skeiðar fylgja kvæði Jóhannesar úr Kötlum, fyrstur var Stekkjastaur sem kom á 5. áratugnum. Áratugum síðar fer af stað samkeppni grunnskólabarna um hönnun skeiðanna sem á eftir fylgdu, sú hugmynd kom frá Guðrúnu Þórsdóttur sem einnig átti heiðurinn að Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Samstarfið við Guðrúnu, grunnskólabörnin og Félag íslenskra myndmenntakennara er eitt það alskemmtilegasta verkefni sem við höfum unnið á þeim langa tíma sem verkstæðið hefur starfað.
Önnur verkefni og nýjungar sem unnið er að í dag er m.a. framleiðsla á trúlofunarhringum úr tantalum sem er dökkur málmur og nýverið notaður í skartgripi. Samvinna við Jörmund Inga Reykjavíkurgoða sem staðið hefur í mörg ár. Hann hefur hannað skartgripi sem ferðamönnum líkar vel og segja sögur sem margar koma á óvart. Á döfinni er samstarf við Guðlaug Kristinn Óttarsson um framleiðslu á skarti og nytjahlutum með hlutverk, sem tengist rannsóknum Guðlaugs á hulduljósi.

gammynd

Guðlaugur A. Magnússon  

gullsmiður hóf starfsemi sína á Ísafirði í febrúar 1924 með gull- og silfursmíðaverkstæði ásamt tilheyrandi verslun með framleiðslu verkstæðisins.
Til Reykjavíkur fluttist verkstæðið 1927 og hefur starfað hér síðan.
1936 er svo hafin framleiðsla á borðbúnaði úr silfri með auknum vélakosti en áður höfðu allir munir verið handgerðir frá grunni. Fyrsta vélin var keypt í janúar sama ár sem var pressa smíðuð af Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík og er varðveitt í Árbæjarsafni ásamt ýmsum gömlum stönsum úr smiðjunni. Fyrirtækið hefur þróast jafnt og þétt og er nú búið þeim fullkomnustu vélum og verkfærum, sem þekkist í þessari iðn.
Til gamans má geta þess að árið 1946, framleiddi verksmiðjan úr 497 kg af silfri, 925/1000 Sterling, og ennfremur úr 3 kg af gulli. Starfsmenn verksmiðjunnar voru þá átta.
Í ágúst 1947 var fyrirtækið gert að hlutafélagi undir nafninu Gull- og silfursmiðjan Erna h/f og var fyrsta stjórnin skipuð þannig: formaður Guðlaugur A. Magnússon, ritari Jens Guðjónsson og meðstjórnandi Stefán Albertsson. Forstjóri var Guðlaugur A. Magnússon.
Í dag er smíði minjagripa og skartgripa um helmingur framleiðslunnar á móti smíði borðbúnaðar. Enn er fornt handverk í hávegum haft og flestir munir handsmíðaðir.
Framkvæmdastjóri er Sara Steina dóttir Reynis Guðlaugssonar meistara smiðjunnar frá 1952 til 2001.

 e2  e3

e1

Silfurhringur eftir Guðlaug sem gert var við í mars 2009. Hringurinn var handsmíðaður 1945 fyrir vinafólk og gefinn Gunnlaugu Emilsdóttur í jólagjöf sama ár.

Heklubandid

Heklu – Bandið, úr þættinum Popp og rokksaga Íslands sem sýndur var á RUV haustið 2015. Sjá má Guðlaug A. Magnússon l.t.h.

Starfsfólk Ernu:

175_7541

Sara Steina framkvæmdastjóri, smiður og bókari ásamt síamstvíbura sínum, kaffikrúsinni.

ragga

Ragnhildur Sif er gull-og silfursmiðameistari og með meistaragráðu í skartgripahönnun. Hún starfar nú sjálfstætt og einnig í samvinnu við Ernu en munir hennar fást m.a. í  Ernu Skipholti og á heimasíðu hennar.  Hér er viðtal við Ragnhildi frá því uppúr 1990

Reynir Már er 4. ættliður gullsmiða í fjölskyldufyrirtækinu. Hér heldur hann á “Gullegginu” sem er hans hugmynd og smíði, fyrir frumkvöðlakeppni “innovit”.  Auk þess að vera meistari í gull-og silfursmíði hefur hann m.a. lokið meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Hann hefur í seinni tíð helgað sig rannsóknum tengdum grænmetishyggju.

nyr Þrainn2

Þráinn lærlingur er eldklár. Starfar við skartgripa- og borðbúnaðarsmíði ásamt öllu tilfallandi m.a. eðalmálmsteypu. Hann var um skeið aðstoðarmaður Kristjáns V. Eyjólfssonar gullsmiðs í London.

ek2

Ásgeir gullsmiður og eðalsteinafræðingur með sérmenntun í tryggingamati

Framkvæmdastjórar Ernu:

Guðlaugur A. Magnússon 1947 (1924)- 1952

Hermann Hermannsson 1952 – 1967

Magnús Guðlaugsson 1967 – 1970

Óttar Guðlaugsson 1970 – 1980

Reynir Guðlaugsson 1980 – 1994

Sara Steina Reynisdóttir frá 1994

Menn sem störfuðu í Ernu við silfursmíði í að minnsta kosti 20 ár en höfðu ekki formlega menntun í gull-og silfursmíði:

Stefán Albertsson 1904- 1988

Björn Jónsson frá Fossi 1915- 2012

Nikulás Guðmundsson 1919- 2002

Óskar Þórir Guðmundsson 1920- 2008

Magnús Guðjónsson 1925- 2015

Bergsveinn Haralz Elíasson 1958- 2014

Íslenskt ævintýri

Til heiðurs þér við stillum alla strengi,/ með stoltum klið skal vor söngur óma./ Á frægðar tindi stattu lengi, lengi/ og leiktu þér við gull og fagra hljóma. (Þorsteinn Halldórsson, 1942)

Guðlaugur A. Magnússon fæddist 16.des. 1902 í Svínaskógi, Fellsstrandarhreppi. Foreldrar hans voru Magnús Hannesson bóndi f.22.jan. 1866 í Guðlaugsvík á Ströndum d.6. apríl 1945, og kona hans Kristín Jónsdóttir f.30. maí 1873 á Úlfarsfelli í Helgafellssveit d. 28.jan. 1958.
Hugur Guðlaugs stóð alla tíð til náms í hljóðfæraleik. Systur hans Hansína og Borghildur, sem hafði greiðasölu á Ísafirði, ákveða að styðja hann til náms í hljóðfæraleik með því skilyrði að hann nemi einhverja iðn auk hljóðfæranámsins. Á Ísafirði lærði hann því gullsmíði hjá Einari Oddi Kristjánssyni og hjá Karli Ó. Runólfssyni lærði hann að leika á trompet. Með þeim Guðlaugi og Karli tókst mikil vinátta og samdi Karl sómötu sína fyrir trompet og píanó til vinar síns. Guðlaugs. Lúðrasveit Ísafjarðar var fyrsta hljómsveitin sem hann lék með. Árið 1926 fór hann utan til Danmerkur til framhaldsnáms í trompetleik og var Lauritz Sörensen þekktur trompetleikari kennari hans. Guðlaugur var talinn mjög fær og teknískur hljóðfæraleikari, að sögn tónlistarmannanna Stefáns Stephensens og Sigurðar Hrafns Þórólfssonar.
1924 fluttist Guðlaugur alkominn suður og setti á fót gullsmíðaverkstæði í Hafnarfirði. 1927 fluttist hann til Reykjavíkur og rak verkstæði sitt fyrst við Bergstaðastræti. Guðlaugur var virkur félagsmaður í Lúðrasveit Reykjavíkur þar sem hann lék oftast fyrsta trompett eða flugelhorn auk þess sem hann gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. 1932 tekur hann þátt í stofnun Félags íslenskra hljómlistarmanna og sat í stjórn félagsins fyrstu árin. 1944 var Hljómsveit F.Í.H.“ stofnuð sem var arftaki Hljómsveitar Reykjavíkur” og vísir að Symfóníuhljómsveit Ríkisútvarpsins” sem nú heitir
Symfóníuhljómsveit Íslands”. Jafnframt því að spila í lúðrasveitum og í symfóníunni spilaði Guðlaugur alla tíð með ýmsum dans og djasssveitum.
Guðlaugur kvæntist 1929 Maríu Hermannsdóttur f.4.sept. 1905 á Ketils-eyri við Dýrafjörð. Þau eignuðust 4 börn: Reyni f.3.apríl 1930, Óttar Hermann f.8. okt. 1931, Jónínu Ernu f.15. nóv 1933 og Magnús Hauk f.20. des. 1943.  Guðlaugur gerðist félagsmaður í Félagi íslenskra gullsmiða á stofnári þess 1924 og sat í stjórn þess og ýmsum nefndum á upphafsárunum.  1936 heldur hann á ný til náms í Danmörku, að þessu sinni til framhalds-náms í silfursmíði. Þar kynnti hann sér smíði borðbúnaðar og flutti þá þekk-ingu með sér heim. Einnig fékk hann hingað útlendinga til starfa við að koma upp framleiðslu á borðbúnaði og skyldum vörum úr silfri.
1947 gerir hann verkstæði sitt að hlutafélagi
Gull-og silfursmiðjan Erna”. Uppúr því eykur hann vélakost smiðjunnar og flytur m.a. inn þá stærstu pressu sem notuð hefur verið við þessa iðju hérlendis með 200 tonna höggþunga á fersentimeter. Smiðjan var búin fullkomnustu tækjum sem þekktust í þá daga og eru margar vélanna í fullri notkun enn í dag tæpum 70 árum síðar. Til gamans má geta að fyrsta vélin sem hann kaupir, 1924, er Westinghouse, svokallaður kratsmótor, sem notaður er við að hreinsa búningasilfur. Sá mótor er enn notaður og er í fullkomnu lagi. Smiðjan hafði það verkefni að smíða vörur fyrir verslunina sem alla tíð hefur borið nafn Guðlaugs. Í seinni tíð hefur Erna einnig sinnt sölu á borðbúnaðinum í auknum mæli.  Á blómatíma fyrirtækjanna voru þau meðal öflugustu fyrirtækja í Reykjavík og náði smíði silfurmuna mest 2 tonnum árlega. Silfurmunir frá Guðlaugi eru til á flestum heimilum landsins og margir erlendir fagurkerar hafa komið sér upp silfri frá Guðlaugi, meðal þeirra er fjöldi Vestur-Íslendinga sem safna íslensku silfri og segja það bera af öllu því sem í boði sé vestra hvað varðar hönnun og handverk. Mörg íslensk sendiráð eru búin silfri frá Guðlaugi og bera hróður íslenskra silfursmiða víða.
Frá gamla bænum í Svínaskógi til þess að setja í gang stóriðju þess tíma sem hálfri öld síðar er blómleg iðja vegna framsýni og góðs grundvallar er einsog saga þjóðarinnar. Í einu skrefi flutti þjóðin úr torf-bæjunum, sem höfðu verið nánast óbreyttir frá landnámi,inn í “nútímann”.

Maríu konu sinni hafði Guðlaugur lofað að minnka spilamennskuna þegar hann yrði fimmtugur þar sem álagið var mikið af því að starfa á tveimur vígstöðvum. Rúmum mánuði fyrir fimmtugsafmælið lést Guðlaugur þ.13. nóv. 1952. Honum entist því ekki aldur til að uppfylla loforðið.
Ávaxtanna af störfum hans munu menn njóta um ókomin ár. Þegar Heinrich Schliemann fann Tróju um síðustu aldamót, sannaðist arfsögnin sem talin var skáldskapur fram að því. Hinir stórkostlegu gull-og silfurmunir sem fundust í rústum borgarinnar renndu stoðum undir að þar hefði eitt sinn staðið mikið menningarríki. Ætla má að smíðaðir hafi verið nokkur hundruð þúsunda gull-og silfurmuna í smiðju Guðlaugs s.l. 75 ár. Einhverjir þeirra munu í framtíðinni segja sögu um blómlegt menningarríki sem stóð á eyju í Atlantshafi.

gudl1

gudl2

gudl3

gudl4

1.

Starfsmenn Gull-og silfursmiðjunnar Ernu um 1948.  Frá vinstri: Harold Wright, Hermann Kjartansson, Stefán Albertsson, Reynir Guðlaugsson, Hans Adolf Hermann Jónsson, Sigurður ?, Jens Guðjónsson og sitjandi Guðlaugur A. Magnússon.

2.

Guðlaugur l.t.h. í “Reykjavíkur Band” í Bárunni um 1950

3.

Guðlaugur l.t.h. á ferð með Lúðrasveit Reykjavíkur um Vestfirði á fjórða áratug síðustu aldar.

4.

Lúðrasveit Reykjavíkur.

Hermann Hermannsson

tók við fjármálastjórn fyrirtækjanna er Guðlaugur lést og Reynir sonur Guðlaugs varð meistari smiðjunnar.

img_new

Reynir Guðlaugsson og nemi hans Kristján Eyjólfsson

Kristján vann síðar um árabil í London þar sem hann smíðaði m.a. þessa nælu fyrir Elizabetu Englands drottningu 2013. Nælan er smíðuð úr hvítagulli og 100 demöntum.

Hér má finna, á eldri vef okkar, ýmsar upplýsingar m.a. úr sögu fyrirtækisins.